132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[12:45]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi það áðan í umræðu um störf þingsins að stjórnarandstaðan ætti að líta í eign barm varðandi það hvað þingstörf hafa dregist, hvað þau eru komin í óefni, og í upplausn auðvitað. Ég held að það sé, virðulegi forseti, mjög mikilvægt fyrir stjórnarliða og þá kannski sérstaklega ráðherrana að líta í eigin barm og skoða það hvenær þeir koma með mál til þingsins. Við ræddum t.d. rétt fyrir páskahlé frumvarp iðnaðarráðherra um Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem, eins og við vitum, miklar deilur eru um í stjórnarflokkunum. Það frumvarp var lagt fram til Alþingis 6. apríl þó svo að það hafi fengið þingmálsnúmer fyrir 1. apríl eins og lög gera ráð fyrir. Okkur þingmönnum var sýnt það 6. apríl. Það kom þá til umræðu og það var vissulega þörf á að ræða það mál virkilega vel, virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að það var rætt 6. apríl og það er ábyggilega ætlun, a.m.k. hæstv. iðnaðarráðherra með mótmælum sjálfstæðismanna að vísu fyrir því stjórnarfrumvarpi, að afgreiða það mál núna fyrir 4. maí. Það skal engan furða, virðulegi forseti, að menn þurfi að ræða þessi mál nokkuð mikið. Byggðaáætlun situr líka inni hjá iðnaðarnefnd og er ekki mikið verið að vinna með, að mér skilst. Hún á eftir að koma ásamt fjöldamörgum öðrum málum.

Virðulegi forseti. Ég gagnrýni það líka og tek undir þá gagnrýni á fundarstjórn forseta, á stjórn forseta Alþingis á starfsáætlun, að í dag skuli t.d. ekki vera fyrirspurnadagur eins og lög gera ráð fyrir. Komið hefur fram að 32 fyrirspurnir bíða svars. Starfsáætlun Alþingis var kippt úr sambandi á fundi með forseta ekki alls fyrir löngu. Virðulegi forseti. Það eina sem stendur eftir af þessari áætlun er fyrirsögnin, og það er frekar aum niðurstaða ef fyrirsögnin og forsíðan er það eina sem stendur eftir en allt innvolsið er farið.

Hér er t.d. verið að breyta í þriðja skipti starfsáætlun um nefndadaga sem við vitum að eru mjög þýðingarmiklir þar sem farið er vel yfir mál. Þeim var hent út, þeim nefndadögum sem áttu að hefjast á föstudaginn kemur og standa fram á mánudag, og enginn veit hvenær þeir eiga að vera. Stjórnarliðar ættu að líta í eigin barm, þar með talinn hæstv. forseti Alþingis með þá dagskrá sem hér er algjörlega farin fyrir bí. Það þýðir ekkert að afsaka þetta með löngum ræðum og ætla að keyra þingið áfram með því að taka málfrelsi af mönnum. Við vitum hvernig það er stundum á lokadögum þegar verið er að semja um hvernig mál eigi að fara í gegn, þá er þingmönnum bannað að taka þátt. Það er algjörlega óásættanlegt form og ég skil ekki af hverju (Forseti hringir.) ráðherrar og yfirstjórn þingsins láta þetta sífellt fara í þetta ófremdarástand.