132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[13:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég skil svo sem vel áhuga hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á að hraða umræðu um einkavæðingu Ríkisútvarpsins sem hér er á dagskrá og önnur einkavæðingarfrumvörp sem eru á færibandi á eftir og Framsókn er nú sérstakur dráttarklár fyrir, þ.e. í einkavæðingunni.

Það sem ég ætlaði að víkja að við hæstv. forseta, og ítreka spurningu mína, varðar fyrirspurnir. Það er kveðið á um það í 49. gr. þingskapa Alþingis sem ég vitnaði til áðan hvernig fara skuli með fyrirspurnir til ráðherra. Það hefur verið hefðbundið að miðvikudagar hafa verið teknir frá fyrir fyrirspurnir. Nú liggja 34 fyrirspurnir ósvaraðar.

Samkvæmt þingsköpum er gert ráð fyrir, eins og segir, með leyfi forseta:

„Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að henni var útbýtt.“

Margar af þessum fyrirspurnum eru miklu eldri, mánaðargamlar, jafnvel eldri. Ég velti því fyrir mér hvernig hæstv. forseti ætlar að meðhöndla það að taka ekki þessar fyrirspurnir á dagskrá eins og þingsköp kveða á um, heldur fella niður hefðbundinn fyrirspurnatíma eins og átti að vera í dag.

Ég spyr hæstv. forseta, úr því að ekki þarf að fara lengur að ströngum þingsköpum: Hvenær verða þessar fyrirspurnir teknar fyrir ef þær verða það þá nokkuð? Lok þingsins eru jú dagsett í vor.

Ég vil líka halda til haga hér og spyrja forseta: Hvaða meðferð eiga þingmannamál, þingmannafrumvörp, að fá hér í þinginu? Mér vitanlega er ekki neitt raunverulegt þingmannamál komið út úr nefnd. Mál stjórnarandstöðuþingmanna fá enga umfjöllun í nefndum almennt — það er alveg hrein undantekning að þau komi hér til 2. umr. Fjöldi mála sem þingmenn stjórnarandstöðu bera hér fram kemur aldrei á dagskrá.

Hins vegar er okkur att í að ræða stöðugt bunka eftir bunka af frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Er eðlileg stjórn þingsins að mál þingmanna fái enga eðlilega meðferð í þingnefndum eða af hálfu Alþingis? Ég spyr forseta. Ef við metum nú hvernig á að ljúka þingstörfum í vor viljum við að sjálfsögðu að mál stjórnarandstöðuþingmanna, þingmanna sem eru búnir að leggja mikla vinnu í sín mál, verði líka tekin fyrir með eðlilegum hætti.

Á það skortir verulega, frú forseti.