132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[13:08]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur staðið nú í rúma klukkustund um störf þingsins og síðan fundarstjórn forseta hefur dregið það berlega fram að starfsfyrirkomulag Alþingis er óviðunandi, að það er ekki mögulegt lengur að vinna samkvæmt starfsáætlun eins og hún hefur viðgengist á liðnum árum. Það er alveg ljóst og leynist engum að í ljósi yfirvofandi þingloka og hins langa sumarhlés iðka ráðherrar þann leik að henda hér inn í Alþingi frumvörpum og gera kröfu um að þau verði að lögum fyrir sumarhlé. Það er búið að fara í gegnum það ítrekað við flutning frumvarps Samfylkingarinnar sem sú er hér stendur er 1. flutningsmaður að ásamt þingflokksformanni Samfylkingarinnar — það frumvarp liggur að sjálfsögðu óafgreitt í allsherjarnefnd — að það er sökum þess að þingið er stúkað niður í hálfsársfyrirkomulag sem við náum ekki að vinna okkur út úr málum eins og þessum. Það er óviðunandi að það skuli vera staðreynd að þinginu sé ætlað að fara heim fyrstu daga maímánaðar og koma til starfa aftur fyrsta virkan dag eftir 1. október. Það er óviðunandi vegna þess hvernig starfsáætlunin verður þegar þessi þinglok nálgast.

Þetta er ekki svona í neinu öðru þingi í kringum okkur. Þetta er sérstakt fyrirkomulag á Alþingi og hefur gjarnan verið nefnt fyrirkomulag þess að menn þyrftu að komast heim í sauðburð og koma ekki aftur fyrr en eftir réttir. Það er ekki þörf á því lengur, virðulegi forseti. Við getum ekki leyft okkur að setja niður starfsáætlun sem nær yfir örfáar vikur að hausti og örfáar vikur að vori og senda þingið síðan heim. Ég undirstrika að það er ekki verið að senda þingmenn heim í frí, eins og oft er talað um í fjölmiðlum, en Alþingi starfar ekki í fimm mánuði á ári og það er áður en þetta fimm mánaða hlé byrjar sem ráðherrarnir hamast hver af öðrum við að senda frumvörpin sín inn í þingið og gera kröfu um að þau verði afgreidd.

Þessu verður að linna og, virðulegi forseti, ég óska þess að þegar þingi lýkur í vor setjist stjórn og stjórnarandstaðan saman yfir þau mál.