132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[13:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla enn og aftur að furða mig á þessari fundarstjórn, að halda hér áfram með þessi mál í stað þess að reyna að ná samkomulagi, reyna að halda fund. Mér finnst þetta mjög sérstakt verklag, að þegar það er ágreiningur eigi að böðlast áfram í stað þess að reyna að ná samkomulagi. Ég er á því að hæstv. forseti mundi skora nokkur stig ef hún tæki þó ekki nema 10 mínútna fund og léti á það reyna hvort hægt væri að ná samkomulagi. Kannski ræður hæstv. forseti engu um þinghaldið, eða vill hafa hlutina með þessum hætti, böðlast áfram í algjöru ósamkomulagi og fella niður fyrirspurnatíma í stað þess að halda stuttan fund og kanna hvort vilji sé til þess að ná samkomulagi um verklagið.

Ég lýsi algjörri furðu á slíkum vinnubrögðum. Það sætir undrun að menn vilji hafa þetta svona. Svo kippa menn sér upp við það í forsetastóli að einhver líki vinnubrögðunum við skrípaleik. Hvað má kalla það annað ef menn eru svona viðkvæmir fyrir því að þetta sé kallað skrípaleikur og vilja síðan ekki kanna hvort hægt sé að ná samkomulagi? Mér finnst þetta stórundarlegt, frú forseti.