132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:45]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hélt yfirgripsmikla ræðu áðan og endaði hana með því að segja að innihaldið skipti máli. Það er akkúrat það sem skiptir miklu máli þegar verið er að fara yfir frumvarp eins og við erum að gera nú, að innihaldinu sé það þokkalega þjappað saman þannig að ekki sé um eilífðarendurtekningar að ræða. Ég er sannfærður um það, frú forseti, að þeir sem hlusta á þessar ræður og eru búnir að heyra tugum sinnum talað um sama efni þeim finnst að hv. þingmenn eigi að huga að því að innihald ræðnanna skipti máli.

Síðan vil ég koma að því að hv. þingmaður er afskaplega tortryggin og fælin á háeffun. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefur það komið fram að ríkisstofnanir sem hafa verið háeffaðar hafi brugðist samfélaginu? Það má nefna margar stofnanir sem breytt hefur verið í hlutafélög, ýmist seldar eða ekki. Má þar nefna banka, síma, ýmiss konar almenningsþjónustu, svo sem fraktflutninga, landflutninga og fleira og fleira mætti nefna. Ræða hv. þingmanns virðist ganga út á að ekkert gangi upp nema það sé ríkisstofnun. Þess vegna langar mig að spyrja að þessu.

Þá langar mig jafnframt að spyrja að því hver eigi að borga afnotagjöld RÚV. Mér fannst á hv. þingmanni að nefskatturinn væri ómögulegur, það væri nánast allt ómögulegt nema hún fann einhverja sem borga fjármagnstekjur og þeir ættu að borga brúsann. Hvernig sér hv. þingmaður í raun að þetta fyrirtæki afli sér tekna?