132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:48]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er merkilegt að sitja hérna úti í sal og hlusta á andsvar sem er dómur á innihald ræðu minnar. Það fannst mér merkilegt.

Frú forseti. Varðandi eignarformið þá kom ég skýrt og skorinort inn á það í ræðu minni að hlutafélagaformið henti mörgum fyrirtækjum mjög vel. Það hentaði að hlutafélagavæða Símann. Það hentar augsýnilega að hlutafélagavæða ÁTVR. (KÓ: … samfylking …) Má ég klára? Hv. þingmaður, þú spurðir mig einna tveggja spurninga og gefðu mér færi á að svara þeim. Svo getur þú komið hér upp í annað andsvar ef þú ert með fleiri spurningar.

(Forseti (RG): Við skulum ekki ávarpa þingmenn beint.)

Frú forseti. Ég sagði það skýrt í ræðu minni, og þetta sýnir að hv. þingmaður var ekki að hlusta á hana, ég sagði það skýrt og skorinort að það hentaði í mörgum tilfellum að hlutafélagavæða, t.d. Símann. Það hentaði með bankana af því að menn voru alltaf í þeim leiðangri að fara að selja þá. Síðan hentar það líka þeim ríkisfyrirtækjum sem ekki eru rekin að meginuppistöðu með skattfé. Það er lykilatriði. Á þennan hluta ræðu minnar hefur hv. þingmaður augljóslega ekki hlustað vegna þess að ég sagði þetta mjög skýrt. Þegar um er að ræða að fyrirtæki sem rekið er fyrir skattfé þá sé mjög vafasamt að rétt sé að reka það sem hlutafélag.

Að auki nefnir hv. þingmaður það og spyr mig hvort ég telji að þessi fyrirtæki hafi orðið slæm við að verða hlutafélög. Það tel ég ekki af þeirri ástæðu sem ég nefndi hér áðan. En þá vil ég spyrja hv. þingmann: Þau fyrirtæki eða stofnanir í ríkiseigu sem hafa verið gerð að sjálfseignarstofnunum, hafa þau orðið slæm við það? Við höfum ekki fengið nein svör við því hvers vegna ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn er svo andsnúinn því að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun. Því þarf líka að svara hér, frú forseti.