132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Auðvitað væri æskilegt að hæstv. ráðherra væri einhvers staðar áheyrandi að þessari ræðu sem ég ætla að flytja. Því í henni kem ég inn á spurningar sem ýmsir hafa fleygt til hæstv. ráðherra og ekki fengið fullnægjandi svör við. Hins vegar dugar mér alveg að hafa hv. formann menntamálanefndar svona fyrstu klukkutímana í minni ræðu. Hann hefur nú sýnt það, sá ágæti hv. þingmaður, að hann hefur glögg skil á því efni sem hér liggur undir þó ég sé honum í öllum grundvallaratriðum ósammála. Ekki alveg öllum, en langflestum.

Það gleður mig alveg sérstaklega að hafa hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hér viðstaddan umræðuna vegna þess að ég get nú vart hugsað mér skondnara, jafnvel ömurlegra, hlutskipti en hv. þingmanns. Nú er það svo að hv. þingmaður berst með kjafti og klóm fyrir því að koma þessu frumvarpi hér í gegn, en það er ekki lengra liðið en eitt ár frá því að hann var flutningsmaður að öðru frumvarpi þar sem hann vildi hafa allt aðrar áherslur. Ég velti því fyrir mér hvað valdi þessum umskiptum hv. þingmanns.

Á köflum hefur hv. formaður menntamálanefndar skipt um skoðun stundum jafnvel svo títt að það hefur verið erfitt að fylgjast með því. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur flutt einhverjar glæsilegustu ræður allra sölumanna sem nokkru sinni hafa verið fluttar í sölum Alþingis. Hér fyrr á árum, þegar hann kom til þessarar umræðu, var hann enn þeirrar skoðunar að það ætti að selja Ríkisútvarpið. Enda flutti hann frumvarp í fyrra sem sagði beinlínis að Ríkisútvarpið skyldi selt fyrir lok þessa árs, 2006. Þegar ég spurði hv. þingmann eftir þessu í 1. umr. málsins var hann enn við sama heygarðshornið.

Hins vegar var kominn skrekkur í hv. þingmann þegar við komum til 2. umr. Ég spurði þá formann menntamálanefndar hvort hann væri enn þeirrar skoðunar að það bæri að selja Ríkisútvarpið. Þá komu einhverjar undarlegar málalengingar hjá hv. formanni nefndarinnar. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Hann hafði bersýnilega verið tekinn á kné ráðherrans og flengdur eins og óþægur strákur. Hann kom hérna eins og fermingardrengur með húfuna í hönd og bukkaði sig og beygði fyrir þeirri stefnu sem er að finna í frumvarpinu og vildi ekki kannast við það, þegar ég spurði hann í andsvari hér við upphaf 2. umr., að hann vildi enn selja Ríkisútvarpið. Svar hv. þingmanns var efnislega á þá lund að það væru ekki aðstæður fyrir sölu núna og þess vegna styddi hann þetta. Hann var með öðrum orðum búinn að láta af sinni gömlu hugsjón um að selja Ríkisútvarpið. Nú er allt í lagi að gera það bara að hlutafélagi. Reyndar hlutafélagi í því formi, frú forseti, sem leiðtogi lífs hans í efnahagsmálum, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sagði að væri ekki 10 aura virði. Hann sagði það í umræðum um frumvarp þeirra þremenninganna, hv. þingmanna.

Mér er líka svolítið skemmt, frú forseti, að heyra að hv. þm. kallar nú fram í. Að hann sé enn kominn á hið upphaflega form skoðunar sinnar. Þá er hv. formaður menntamálanefndar búinn að skipta, að því er mér telst til, fjórum sinnum um skoðun. Hann er með öðrum orðum farinn að minna töluvert á gengi íslensku krónunnar sem fer upp og niður, en því miður yfirleitt niður, undir stjórn þessarar ríkisstjórnar.

Ég hef furðað mig á þessu, frú forseti, vegna þess að ég hef reynt hv. þingmann að því að hann er skeleggur talsmaður fyrir vondum málstað. Hann stóð hvað fastast í brimskaflinum fyrir ríkisstjórnarliðið þegar við vorum að ræða vatnalögin. Hann má eiga það að hann flutti þó bestu rökin fyrir þeim sjónarmiðum sem ríkisstjórnin hafði í því annars vonda máli. Þau rök voru hins vegar ekki nógu góð. En þar skorti ekki staðfestuna. Nú er það aftur á móti svo að málið er orðið ákaflega erfitt fyrir ríkisstjórnina. Það er kominn upp urgur í liði hennar. Framsóknarflokkurinn er nú búinn að skilja að hann var plataður í enn eitt skiptið. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson átti nú töluverðan þátt í því og sýndi mikla, jafnvel aðdáunarverða, hugkvæmni í því að snúa út úr ábendingum Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og plata Framsóknarflokkinn til að fallast á að háeffa þessa ágætu stofnun.

Það sem mér finnst þó merkilegast, frú forseti, við framgöngu hv. þingmanns, formanns menntamálanefndar, og ég kem að síðar í minni ræðu, er að hluti af því farteski sem hv. þingmaður er að berjast fyrir að koma hér í gegnum þingið er nefskattur. Það hefur enginn lagt fram betri rök gegn nefskatti en hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Hann gerði það í þingmáli sem hann flutti með hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Birgi Ármannssyni og þar var í 13 liðum hrakin með snilldarlegum hætti röksemdarfærsla hæstv. menntamálaráðherra fyrir nefskatti og hugkvæmni hv. þingmanns og samflutningsmanna hans og söguleg þekking kom jafnvel hv. þingmönnum eins og Einari Má Sigurðarsyni, Jóhanni Ársælssyni og Merði Árnasyni á óvart. Kalla þeir þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Hv. þingmaður gat þess t.d. að á dögum genginna konunga í Bretlandi hefði nefskattur leitt til bændauppreisnarinnar 1643. Hann gat þess líka, svona í framhjáhlaupi, að síðast þegar taka átti upp nefskatt í Bretlandi hefði það leitt til þess að annað goð hv. þingmanns var af stalli fellt. Það var Margrét Thatcher.

Þetta er rakið í kafla í frumvarpinu sem hv. formaður menntamálanefndar flutti í fyrra en kaflinn hét: Frumvarp menntamálaráðherra. Þar var rakið í 13 liðum af hverju það væri fáránlegt og út í hött og, eins og þeir sögðu, hv. flutningsmenn, ekki 10 aura virði að samþykkja frumvarp með nefskatti.

Nú hefur þessi hv. þingmaður, ungur sem hann er að árum en sem betur fer að öðlast reynslu, algerlega snúist í hring. Hann kemur hingað. Hann berst af hugrekki ljónsins fyrir því að ná í gegn nefskatti.

Frú forseti. Ég vænti þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson skýri fyrir þingheimi, þá kannski helst fyrir sjálfum sér, hvað veldur því að hann hefur á einu ári hringsnúist í þessu máli. Mig langar að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson: Er hann enn sömu skoðunar og hann var í fyrra um nefskattinn? Ef hann hefur fallið frá þeirri skoðun sem hann hafði á honum langar mig að fá að vita hvað veldur skoðanaskiptum hans. Ef hann hefur enn þá sömu skoðun og í fyrra, sem mér finnst ólíklegt miðað við önnur skoðanaskipti hans í þessu máli, langar mig að spyrja: Hvernig stendur þá á því að hann er hér fremstur í flokki manna við að koma þessum nefskatti í gegnum hið háa Alþingi?

Þetta var nú, frú forseti, það sem ég vildi í upphafi máls míns gleðja hv. formann menntamálanefndar með. Ég tel nefnilega að í honum sé fólgið pólitískt efni og mér er raun að því þegar menn sóa sínu góða pólitíska kapítali og innstæðu með framferði af þessu tagi.

Ég þarf ekki að upplýsa þingheim eftir fyrri ræður sem ég hef haldið hér um þetta mál að þetta frumvarp er að mínu mati ótækt. Ég er efnislega algerlega á móti því. Ég er á móti flestum meginatriðum þessa frumvarps. Ég er algjörlega á móti því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Ég er hins vegar sammála þeim markmiðum sem hafa komið fram, t.d. í máli formanns menntamálanefndar, að það sé nauðsynlegt að skapa Ríkisútvarpinu meiri lipurð og sveigjanleika á markaði til að geta brugðist við nýjum og breyttum aðstæðum. Til þess eru ýmsar leiðir.

Ein leið er hlutafélagaformið. Ég fer í engar grafgötur með að fyrir fyrirtæki sem lifa af sjálfsaflafé, jafnvel þótt þau séu í eigu ríkis eða sveitarfélaga, er hlutafélag heppilegt form. Þó er ég þeirrar skoðunar að það sé ákaflega óheppilegt að opinber fyrirtæki eða stofnanir sem eru að uppistöðu reknar fyrir skattpeninga almennings séu settar yfir í hlutafélagaformið. Allra síst tel ég það sé gerlegt með þeim hætti sem hér er lagt til. Það er nefnilega blekking sem ríkisstjórnin heldur fram, að hér sé búið til sjálfstætt hlutafélag. Eitt af því sem hæstv. menntamálaráðherra hefur talað mikið um í þeim fjölmörgu ræðum og andsvörum sem hún hefur flutt á þingi er að meginmarkmiðið sé að gera Ríkisútvarpið hf. að sjálfstæðu hlutafélagi.

Enginn í þessum sal hefur jafnmikla þekkingu á því hvernig hlutafélagamarkaðurinn virkar og hver eru lögmál hans eins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Sá ágæti þingmaður Pétur H. Blöndal lýsti því yfir í umræðu, þar sem hann tók sérstaklega fyrir sitt eigið frumvarp, að það væri með engu móti hægt að kalla Ríkisútvarpið hf., yrði frumvarpið samþykkt, sjálfstætt hlutafélag. Ég er sammála honum um það.

Hann benti á að samkvæmt frumvarpinu kýs ekki einu sinni handhafi hlutabréfsins, sem er bara eitt í þessu fyrirtæki, stjórn félagsins. Handhafi hlutabréfsins, hæstv. menntamálaráðherra, verður að taka pólitískum skipunum frá meiri hlutanum á þingi. Honum er stillt upp við vegg með því að skipa í reynd pólitíska stjórn. Menn geta haft skoðanir á því, jákvæðar eða neikvæðar. En það þýðir hins vegar, frú forseti, að Pétur H. Blöndal kemst að þeirri niðurstöðu að við slíkar kringumstæður sé ógerlegt að tala um að slíkt hlutafélag sé sjálfstætt. Ég hef í reynd hina efnislegu niðurstöðu hv. þm. Péturs H. Blöndals fyrir því þegar ég segi að það er blekking hjá ágætum þingmönnum stjórnarliðsins sem rembast eins og rjúpa við staur við að koma þessu frumvarpi í gegn og segja að búið verði til sjálfstætt hlutafélag úr RÚV.

Ég er að sjálfsögðu í meginatriðum og mest á móti því að þetta opnar fyrir sölu á RÚV. Það segir að vísu í 1. gr. frumvarpsins að það megi ekki selja RÚV eða hluta úr því. Framsóknarmanninum Hjálmari Árnasyni, hv. formanni þingflokksins, þótti nokkurt hald í þessari grein þegar hann hélt ágæta ræðu þar sem hann skýrði fyrir hönd Framsóknarflokksins af hverju flokkurinn hefði beygt af leið við 1. umr. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að hann mundi loksins treysta sér til að styðja að Ríkisútvarpið yrði háeffað vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði lofað að það yrði ekki selt, það væri meira að segja búið að fá staðfestingu á því með því að í 1. gr. frumvarpsins er þessi klásúla um að það megi ekki selja neitt. Þess vegna hlustaði ég grannt eftir því þegar hér urðu orðaskylmingar milli háttvirtra þingmanna og hæstv. menntamálaráðherra þar sem hún gekkst við því, hreinskilnislega, að þrátt fyrir allt væri hægt að selja. Það þyrfti ekki annað en samþykki Alþingis með sérstökum lögum.

Ég veit að hv. þingmaður og formaður menntamálanefndar kannast við það úr þingsögunni að í fjárlagafrumvarpinu ár hvert eru svokölluð „þrátt fyrir ákvæði“. Það eru ákvæði sem segja að þrátt fyrir að ekki megi eyða fjármunum sem aflað er samkvæmt sérstökum lögum nema með tilteknum hætti þá skuli þeir samt teknir í ríkissjóð. Þessi „þrátt fyrir ákvæði“ eru auðvitað til marks um að þingið getur hvenær sem það vill, bara með einni samþykkt í þessum sölum, séð til þess að Ríkisútvarpið verði selt.

Nú er það svo, frú forseti, að það liggja auðvitað fyrir yfirlýsingar fjölmargra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að það eigi ekki að selja Ríkisútvarpið. Margir góðir og gegnir sjálfstæðismenn halda því fram að það sé rétt að RÚV verði alltaf í almannaeigu. En það eru að verða breytingar á þessum viðhorfum. Þessar breytingar verða með kynslóð nýrra stjórnmálamanna eins og hv. þm. Birgis Ármannssonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar. Þeir tilheyra vaskri sveit ungra hugsjónamanna af hægri vængnum, hinum svokallaða frjálshyggjuvæng í Sjálfstæðisflokknum. Þessi vængur hefur á síðustu árum rutt sér til rúms með nokkuð stórtækum hætti. Fulltrúar þessa vængs eru komnir inn í borgarstjórn Reykjavíkur eða eru á leiðinni þangað. Ég rifja það upp að einn af pólitískum samherjum þessara ungu þingmanna, Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi, missti það út úr sér hér í aðdragandanum að kosningabaráttunni að það kæmi hugsanlega til greina einhvern tímann í framtíðinni að selja Orkuveitu Reykjavíkur.

Hv. þm. Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson hafa árum saman barist fyrir því, innan vébanda ungliðasveitar Sjálfstæðisflokksins, að samþykktar væru ályktanir og tillögur undir drynjandi trumbuslætti um að Ríkisútvarpið ætti að selja. Þetta er með öðrum orðum, frú forseti, skoðun alls yngri hluta Sjálfstæðisflokksins. Við vitum að tímanum vindur fram og þeir sem eru í framlínu hverju sinni í stjórnmálunum þokast úr henni og nýjar kynslóðir taka við. Sú kynslóð sem þessir tveir hv. þingmenn sem ég nefndi áðan mun fyrr en seinna setjast að völdum í Sjálfstæðisflokknum eins og sama kynslóð mun taka yfir valdatauma í öllum öðrum flokkum. Ég óttast að þegar búið er að ná þeim áfanga sem þessir menn berjast fyrir í dag, að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið, þá verði þeir reiðubúnir til að stíga stærri skref. Ég óttast það. Ég treysti því ekki þegar sagt er í dag að RÚV verði ekki selt. Ég treysti því enn síður, frú forseti, þegar ég les frumvarp sem þessir háttvirtu þrír þingmenn fluttu hér í fyrra.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson dró sig af einhverjum undarlegum ástæðum út af því frumvarpi nú í ár. Gæti verið, frú forseti, að það tengdist þeirri staðreynd að hv. þingmaður var orðinn formaður menntamálanefndar og það þótti ekki nægilega trúverðugt að formaður nefndarinnar, sem átti að vinna að háeffun Ríkisútvarpsins í gegnum þingið, væri á frumvarpi sem beinlínis lyti að sölu RÚV? Þar var hann þó þangað til hann brast kjarkinn á þessu ári og fór að sikksakka með skoðanir sínar í þessu efni.

Mig langar að rifja það upp fyrir þingheimi að í áðurnefndu frumvarpi er birt tímaáætlun um hvað þessir herramenn mundu gera ef þeir hefðu völdin í landinu og mættu móta stefnuna. Tímaáætlunin sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flutti með svo glæsilegum hætti í vel reifuðu frumvarpi, byrjar svona eins og frumvarpið lítur út í dag:

„Apríl 2006. Frumvarp samþykkt.

1. júlí 2006. Hlutafélag, RÚV hf., stofnað.

Fyrir árslok 2006. Útvarpsráð skilgreinir verkefnin og vinnur fjárhagsáætlun fyrir 2007.

Gerir samning við RÚV hf. um framkvæmd allra verkefna þess árið 2007.

Fyrir árslok 2006. Útvarpsráð fer á fjárlög fyrir 2007.“

Síðan kemur hér: „Fyrir árslok 2006. RÚV hf. selt.“

Þarf frekari vitnanna við? Kynslóðin sem nú er komin í fremstu víglínu í flokknum, farin að stýra þyngstu nefndum þingsins, mun fyrr en seinna öðlast þau völd innan Sjálfstæðisflokksins að hún geti látið svona hugsýnir — ég vil nú ekki kalla þetta hugsjónir — rætast. Það kemur að því að aðrir og enn yngri menn en þessir ágætu tvímenningar sem ég nefndi hér til sögu, uppalningar þeirra úr SUS, úr Heimdalli, sem þeir hafa árum saman fengið til að samþykkja ályktanir um að selja eigi RÚV, munu líka þokast inn í þingmannaliðið hjá Sjálfstæðisflokknum þegar þessir ágætu herramenn verða komnir þar til enn frekari valda en þeir hafa í dag ef Guð og lukkan lofar þeim. Það er þá sem þeirri áætlun, sem ég las hér upp um söluna á RÚV, verður hrint í framkvæmd. Þetta er það sem ég óttast mest við þetta frumvarp.

Afstaða margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins liggur fyrir. Afstaða heilla félaga í Sjálfstæðisflokknum liggur fyrir. Afstaða stærsta félags innan Sjálfstæðisflokksins liggur fyrir, afstaða Heimdallar og öflugustu og virkustu samtakanna, Samtaka ungra sjálfstæðismanna. Þannig er alveg ljóst hver framtíðarsýnin er.

Frú forseti. Fyrir tíu árum voru aðrir menn, yngri en þeir eru í dag, sem höfðu líka hugsjónir. Þeir náðu því á sínum tíma fram að flokkurinn gerði að opinberri stefnu sinni að hefja partasölu á Ríkisútvarpinu. Þeir náðu því í gegn eftir áralanga baráttu á landsfundum Sjálfstæðisflokksins sem hófst upp úr 1990, að það yrði stefna Sjálfstæðisflokksins að selja Rás 2. Eins og hv. þingmenn sem hafa sögulegt minni muna eftir þá lagði Sjálfstæðisflokkurinn í kosningar árið 1995 með tvennt að leiðarljósi, sem með nokkuð skoplegum hætti var svo skilgreint af góðvini mínum og hæstv. forseta, fyrrverandi formanni Alþýðuflokksins Jóni Baldvini Hannibalssyni, með svofelldum hætti: Sjálfstæðisflokkurinn vill efla guðskristni í landinu og selja Rás 2.

Ég veit ekki hvort honum hefur tekið hið fyrrnefnda en mér leikur efi á því. En með þessu frumvarpi stígur hann a.m.k. töluvert skref í áttina að því að gera að veruleika draumsýn hinna ungu manna sem börðust fyrir þessu upp úr 1990.

Í samhengi við þessa umræðu er rétt að menn hafi það í huga að eitt af því sem þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem harðast hafa andæft þessu frumvarpi og bent á með beittum rökum er fjárhagsstaða RÚV. Eitt af afrekum 20 ára skeiðs Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu er það að fjárhagur RÚV er ákaflega erfiður. Vitum við hve erfiður hann er? Það veit enginn maður.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, lögfræðingur, ætlar sér með þessu frumvarpi að gera það sem hann mundi aldrei ná í gegn á almennum markaði ef hann væri starfandi á almennri lögfræðiskrifstofu úti í bæ og ég kæmi til hans og bið hann um að skrá fyrir mig hlutafélag og það væri ekki klárt hver eiginfjárstaða þess væri. Hann fengi aldrei að skrá það. Þetta veit hv. þingmaður. En hann er samt sem áður með frumvarp um að búa til hlutafélag úr RÚV án þessu að vita hver eiginfjárstaða hlutafélagsins verður. Á almennum markaði mundi það aldrei fást í gegn vegna þess að enginn endurskoðandi mundi treysta sér til að skrifa upp á slíkt. Heiðarlegum lögfræðingum, eins og hv. formanni menntamálanefndar, mundi aldrei koma það til hugar.

Þetta, frú forseti, er auðvitað langrar umræðu vert. Þetta speglar vel flumbruganginn og þá hrákasmíð sem er á ákveðnum köflum þessa frumvarps, að menn skuli láta koma sér til hugar að samþykkja frumvarp um Ríkisútvarpið án þess að vita hver eiginfjárstaðan er, án þess að vita hver eignastaðan er, eins og hv. þm. Mörður Árnason hefur bent á með sterkum rökum.

Þetta er þannig að fræðilega gætu skuldunautar hins nýja félags, ef samþykkt verður, gengið að því á fyrsta degi og gert það gjaldþrota, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði í sinni fyrstu ræðu. Hann sagði ekki hægt að hafa þetta sameignarfélag með ótakmarkaðri ábyrgð ríkisins því að þá væri ekki hægt að gera það gjaldþrota. Þessa tilvitnun get ég fundið og lesið upp fyrir háttvirtan þingmann.

Það ekki svo að ég haldi því fram að það sé sérstakt keppikefli fyrir formann menntamálanefndar að gera Ríkisútvarpið gjaldþrota. En hann tók svona óheppilega til orða. Staðreyndin er þessi: Enginn maður á Íslandi veit hver eiginfjárstaða Ríkisútvarpsins er. En allir sem bera skynbragð á lögin vita að á almennum markaði fengist samkvæmt hlutafjárlögum ekki skráð félag án þess að menn hefðu slíka grundvallarþekkingu á stöðu þess. Svo koma þessir menn og segja, þegar við spyrjum þá út í aðferðafræðina: Lesið hlutafélagalögin.

Hv. þm. Mörður Árnason gekk hér hart að hæstv. menntamálaráðherra til að spyrja hana út í ákveðna hluti sem vörðuðu samþykktir og þjónustusamninga. Þá sagði hæstv. menntamálaráðherra ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum: Farðu og lestu hlutafélagalögin. En í 13. töluliðum hlutafélagalaganna eru liðir sem varða einmitt samþykktir stjórnar. Þar er auðvitað um allt aðra hluti að ræða en þá sem í lögunum, í 8., 10. og 11. gr., er vísað til samþykktar. Það er verið að tala um ábyrgð Ríkisútvarpsins, dagskrárstefnu og skilgreiningu almannaútvarps. Engum lifandi manni kemur til hugar að fara og leita svara við slíkum skilgreiningum í hlutafélagalögunum. En hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er genginn úr salnum og það þykir mér miður því að þetta var enginn smáútúrdúr hjá mér.

Ég var kominn þar niður í minni ræðu að ég var að undirstrika tengslin milli þeirrar fjárhagslegu stöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn er að setja Ríkisútvarpið í núna með hlutafélagavæðingunni og þeirrar vegferðar flokksins sem hefur leitt til þess að árum saman hefur þessi menningarstofnun verið fjársvelt. Og hins vegar sömu áforma innan Sjálfstæðisflokksins.

Ég rifjaði upp að það hefur verið draumur margra manna sem nú eru komnir til áhrifa í Sjálfstæðisflokknum að hefja partasölu á Ríkisútvarpinu. Byrja á Rás 2. Hvað segir í 3. gr. þessa frumvarps? Þar kemur það alveg skýrt fram að samkvæmt hinum nýju lögum mun Ríkisútvarpið ekki axla þá skyldu að reka Rás 2. Þar segir að að lágmarki verði að hafa eina hljóðvarpsrás og eina sjónvarpsrás. Ég hlustaði með athygli á þegar hv. þm. Mörður Árnason spurði hv. menntamálaráðherra hvað þetta þýddi. Hvort þetta þýddi að það væri hægt að selja eða leggja niður Rás 2. Svar hennar var ákaflega eftirtektarvert. Það var þetta: Það verður hinnar faglegu stjórnar og útvarpsstjóra að ákveða.

Með öðrum orðum, frú forseti. Við alþingismenn sem lítum á Rás 2 sem hluta af nútímalegri menningu og burðarás og burðarstoð undir nýgilda tónlist Íslendinga, við sem teljum að Rás 2 eigi áfram að vera til og gegna því hlutverki sem hún hefur, við mundum við slíkar aðstæður ekki hafa neitt um það að segja. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu. En það kemur líka skýrt fram í þeim svörum sem hv. þm. Mörður Árnason fékk frá hæstv. menntamálaráðherra. Hún sagði það bara alveg skýrt. Það verður ekki mitt hlutverk. Það verður ekki hlutverk Alþingis. Það verður hlutverk faglegrar stjórnar og útvarpsstjóra.

Við getum svo deilt um það hvort stjórn, sem er kosin pólitískri kosningu fyrst og fremst með það markmið í huga að tryggja ítök Sjálfstæðisflokksins sem hefur gert það að forgangsverkefni núna í 20, 30 ár að hafa undirtökin í þessari stofnun, sé hægt að kalla faglega stjórn. En það er aukaatriði í þessum hluta ræðu minnar.

Stórir hópar stjórnmálamanna innan Sjálfstæðisflokksins vilja selja Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið er í erfiðri fjárhagslegri stöðu. Það er formleg stefna flokksins alls að leggja niður eða selja Rás 2. Og núna er verið að setja inn í frumvarpið heimild til að gera það og það er kórónað með því að hæstv. ráðherra tekur af skarið og segir: Alþingi mun ekki fá að koma að því. Þá segi ég: Það þarf ekki frekari vitnanna við. Það er þetta sem ég óttast. Ef hæstv. ráðherra hefði fyrir sitt leyti skýrt þetta með þeim hætti að að sjálfsögðu mundi Alþingi fá að koma að því ef leggja ætti Rás 2 af, þá hefði ég andað svolítið rólegra. Ráðherra tók hins vegar algerlega af skarið með þetta mál.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvers konar vinnubrögð honum finnist það vera að ætla sér að pressa þetta mál í gegn með þessum mikla hraða, án þess að menn fái að skoða nákvæmlega ýmsa þætti og reyna að svara ýmsum spurningum sem vakna við meðferð málsins á þingi, og vita ekki einu sinni hver eiginfjárstaðan er. Finnst hv. þingmanni að þetta séu boðleg vinnubrögð?

Af því að hv. þingmaður er sá sem núna hefur ábyrgðina á þessu máli í höndum sínum hér á meðan það er innan þingsins langar mig að spyrja hann: Hvaða nauður rekur til að það verður að samþykkja þetta núna? Af hverju taka menn sér ekki tíma og skoða t.d. hina fjárhagslegu stöðu og komast að því hver hún er? Þannig að hæstv. ríkisstjórn gæti nú hugsanlega, ef hún ætlar sér eigi að síður að ljúka þessu máli, reitt af höndum það fé sem þarf til að koma hinu nýja hlutafélagi á þokkalega fjárhagslegan grunn. Þetta eru engin vinnubrögð. Þau eru til skammar. Þau mundu verða flautuð út af eins og hv. þm. Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir jafnan um það sem honum finnst ekki áferðarfallegt í stjórnmálum og annars staðar. Þetta er ekki áferðarfallegt.

Frú forseti. Ég gat þess fyrr í ræðu minni að það hefði í reynd verið mögulegt að ná markmiðum sveigjanleika og lipurðar sem við, ég og hv. þm. Sigurður Kári, erum sammála um að séu æskileg, með fleiru móti en því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Einn möguleiki er sá að gera það að sjálfseignarfélagi. En af hverju vilja menn ekki gera það að sjálfseignarfélagi? Ríkisstjórnin hefur sagt það alveg skýrt fyrir sitt leyti í öðru máli og óskyldu hvers vegna hún tekur hlutafélagaformið fram yfir sjálfseignarformið.

Hér í þinginu liggur fyrir annað frumvarp. Það er frumvarp sem miðar að því að gera rannsóknastofur matvælarannsóknastofnana ríkisins að hlutafélagi. Renna þeim saman og hlutafélagavæða. Ég hef lýst stuðningi við það frumvarp. Ástæðan er sú að eðlismunur er á stofnun af því tagi eða fyrirtæki og Ríkisútvarpinu. Þessi einfaldi munur, sem einu sinni var nú grundvallarregla að virða í Sjálfstæðisflokknum, felst í því að þessi nýja hlutafélagavædda matvælarannsóknastofa er rekin af sjálfsaflafé en Ríkisútvarpið er að uppistöðu rekið fyrir fjármuni almennings.

Hæstv. forsætisráðherra reifaði það mál mjög vendilega í ræðu sem hann flutti þegar hann mælti fyrir frumvarpinu um að háeffa rannsóknastofnanir matvælaiðnaðarins. Hann sagði hreinskilnislega að menn hefðu skoðað tvenns konar form, sjálfseignarfélag í atvinnurekstri annars vegar og hlutafélag hins vegar. Í greinargerðinni, sem hæstv. forsætisráðherra las upp, segir eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Til greina kom sá möguleiki að reka sameinaðar matvælarannsóknastofur í formi sjálfseignarstofnunar. Niðurstaða athugunar var sú að auðveldara yrði að fá fleiri aðila til að taka þátt í hlutafélagi þegar fram í sækir en í sjálfseignarstofnun. … Sjálfseignarstofnanir eiga almennt mun erfiðara með að fá aukin stofnframlög en hlutafélög að auka hlutafé sitt eða breikka hópinn sem leggur þeim til fé.“

Skýrara er nú tæpast hægt að tala. Þarna segir Halldór Ásgrímsson, hæstv. forsætisráðherra, að ástæðan fyrir því að menn velja hlutafélagsformið fram yfir form sjálfseignarfélags sé sú að það er hægt að selja félagið í pörtum. Það er hægt að fá nýja hluthafa inn í það ef reksturinn gengur illa.

Frú forseti. Gæti verið að þegar skorið er til hjartans og nýrnanna þá sé það einmitt þetta sem líka vakir fyrir mönnum með Ríkisútvarpið? Gæti verið að sú hugsun sem þarna er sett fram á algerlega tæru formi tengist þeirri staðreynd að það á að skilja Ríkisútvarpið eftir í miklum fjárhagslegum vandkvæðum? Hvað gerir nýtt hlutafélag sem á ekki fyrir útgjöldum en á hugsanlega kost á að selja einhverjar eigur sínar eða taka inn nýja aðila sem leggja fram nýtt hlutafé? Í öllum venjulegum tilvikum sjálfstæðra hlutafélaga mundi þetta gerast. Er ekki RÚV sjálfstætt hlutafélag? Jú. Það er meginþráðurinn, sá allra rauðasti, í orðum þeirra sem mæla fyrir frumvarpinu. Er hugsanlegt að næsta skref verði kannski eftir eitt ár eða tvö ár að standa upp og benda á þá staðreynd að enn eigi hlutafélagið í fjárhagserfiðleikum? Það sé ekki hægt að skera meira niður, og þá ber nú að hafa í huga að niðurskurðurinn síðan 1996 í mannafla er 15% og tekjurnar til 2004 hafa minnkað miðað við launavísitölu um 19% — heimild mín í þessum efnum er nýleg úttekt Morgunblaðsins.

Við þessar aðstæður sjáum við fyrir okkur framtíð þar sem Ríkisútvarpið er í fjárnauð, en það er orðið að hlutafélagi, það er búið að skera öll þau fitulög sem hægt er að skera. Þá er auðvelt að koma fram og segja: Það er ekki nema einn kostur eftir og hann er sá að láta af hendi einhverja starfsemi. Leggja t.d. Rás 2 inn í hlutafélag með öðrum aðilum og fá þá peninga á móti. Selja eigur til að hafa fyrir rekstri. Það gera sjálfstæð hlutafélög þegar þau lenda í erfiðleikum.

Það er þetta sem vakir fyrir Sjálfstæðisflokknum. Það á að halda RÚV áfram hangandi á horriminni og það á að fara eftir þessari möntru sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra um að hlutafélagaformið væri æskilegra vegna þess að það væri auðveldara að fá nýja hluthafa inn í slíkt félag heldur en sjálfseignarfélagið. Þetta er mergurinn málsins. Þetta er það sem ég óttast. Það er þess vegna sem ég gruna Sjálfstæðisflokkinn um græsku í þessu máli. Sá grunur er á rökum reistur, ekki bara vegna þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur skipt um skoðun á lykilatriðum — ég vona að hv. þm. Pétur Blöndal sé enn sömu skoðunar og hann, ásamt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, var í fyrra um nefskattinn. Í glæsilega vel orðuðu plaggi sem einmitt fjallaði um það. En þetta er það sem ég óttast, frú forseti. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur líka gagnrýnt að fyrirtæki eins og stofnun verði gert að hlutafélagi á því formi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sagt að slíkt félag sé ekki 10 aura virði. Það væri gaman að fá fram hvort hv. þingmaður sé enn þá sömu skoðunar og hann var í fyrra á því (Gripið fram í.) og hvort hv. þingmaður muni standa við stóru orðin sem hann lét falla í þeirri ræðu og greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi. Þó vissulega verði það á öðrum forsendum gert en mínum. (Gripið fram í.)

Pétur H. Blöndal hefur flutt skýrustu ræðurnar gegn þeim aðferðum til fjármögnunar á Ríkisútvarpinu hf. sem ég hef enn heyrt nokkurn flytja. Reyndar var það stutt af þeim ágætu þingmönnum sem þá fluttu frumvarpið — hv. þingmaður gæti kannski upplýst mig um hvort ástæðan fyrir því að formaður menntamálanefndar er ekki lengur á frumvarpinu með honum sé sú að hv. þingmaður hafi kannski tilkynnt honum að hann hafi skipt um skoðun. Þetta er mér hulið. En ég bíð eftir að fá upplýsingar um það.

Hv. þingmaður flutti hér þingmál ásamt þingbræðrum sínum, þeim Birgi Ármannssyni og einhverju sinni Sigurði Kára Kristjánssyni, þar sem hann tók fram skurðhnífinn og svo að segja fletti hold frá beini þegar hann var að ræða um nefskattinn. Hv. þingmaður telur upp, sýnist mér, eina 13 liði sem hann segir að séu neikvæðir við nefskattinn. Hann segir í fyrsta lagi að þessi leið flæki skattkerfið og lagasafnið og bendir á að lög um Ríkisútvarpið séu ekki skattalög. Þó er það svo að ríkisskattstjóri hefur sýnt fram á í umsögn sinni að gjaldið, nefskatturinn, sem hér á að leggja á er ekkert annað en skattur og segir að miðað við öll hugtök og skilgreiningar skattafræðanna sé ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að þarna sé um að ræða skatt.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi þess vegna alveg sérstaklega að þeim sem ætluðu að kynna sér skattkerfið, hugsanlega með það fyrir augum að ætla sér að stofna fyrirtæki, mundi yfirsjást þessi skattur vegna þess að hans er hvergi getið nema þá í lögum um Ríkisútvarpið hf. Hvaða manni dytti í hug að leita í þeim lögum til að reyna að finna þann kostnað sem felst í því að reka fyrirtæki? Þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal geti þess ekki sérstaklega er þessi leið hins vegar algerlega í andstöðu við málflutning margra sjálfstæðismanna á þessu þingi sem miðar að því að draga úr kostnaði við að setja upp sjálfstæð hlutafélög. Ég er sammála þeim um þetta. Ég flutti sjálfur þingmál um þetta fyrir þremur árum. Á þessu ári flutti hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hugsanlega með einhverjum af þessum ágætu þingmönnum, sérstaka tillögu um að draga úr kostnaði við að setja á stofn fyrirtæki. Einn af þeim sem flutti það frumvarp með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni berst núna eins og ljón fyrir því að auka kostnaðinn, þ.e. hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem var einn af flutningsmönnunum.

Ég verð að segja hv. þm. Pétri H. Blöndal til hróss að ég tel að sú aðferð sem hann reifar í frumvarpi sínu sé miklu geðfelldari en nefskatturinn. Ég tel líka að hún sé meiri jöfnunaraðgerð, þ.e. hún kemur betur út fyrir þá sem eru fjárvana og þeim sem verður féskylft í lífinu af einhverjum ástæðum.

Pétur H. Blöndal nefndi að gjaldið yrði að sérstökum skatti með sérstakri innheimtu sem flækja mundi kerfið mjög mikið. Hann bendir á að ekki sé með nokkrum hætti hægt að benda á einhver rökræn tengsl við þetta gjald og það gjald sem menn greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Ég tel að hefði hv. þingmaður hugsað þetta enn lengra, en hann hefur kannski af tillitssemi við hæstv. ríkisstjórn og kannski sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra ekki viljað segja kjarnann í þessu máli, sem er sá að með þessari aðferð er verið að fela nefskattinn.

Það kemur líka fram í hinni ágætu umsögn Péturs H. Blöndals og þeirra sem fluttu hið upphaflega frumvarp, sem Sigurður Kári hljópst svo í brott frá, að af tillögu menntamálaráðherra leiðir að fyrirtæki sem eru skattskyld eiga líka að greiða þetta gjald. Það kemur fram í frumvarpi þessara ágætu þingmanna að þetta séu 22 þúsund fyrirtæki. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að þetta séu 28 þúsund fyrirtæki. Ríkisskattstjóri leiðir getum að því að 13 þúsund þessara fyrirtækja séu í raun ekki með lífsmarki, séu ekki á hreyfingu. Hann getur þess sérstaklega að fyrir tilstilli ágætra þingmanna var fyrir nokkrum árum búin til leið — gott ef hv. þm. Pétur H. Blöndal kom ekki að því líka — sem auðveldaði slit á slíkum félögum sem segja mætti að væru ekki lengur með lífsmarki.

Þessi aðferð, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Verslunarráðsins ætti að hafa kynnt sér, leiðir til að þess að þessi lagalega leið til að slíta óvirkum litlum fyrirtækjum, án þess að verið sé að knýja þau í gjaldþrot, verður ómerk. Þetta þýðir, og það eru ekki mín orð heldur ríkisskattstjóra, að það er hugsanlegt að á annan tug þúsunda lögaðila, á annan tug þúsunda lítilla fyrirtækja verði í reynd knúin í gjaldþrot með öllum þeim kostnaði og leiðindum sem því fylgir, því að farvegurinn í gegnum kerfið til að slíta þessum félögum án gjaldþrots er ekki lengur til. Það var Verslunarráðið, sem hv. þm. Birgir Ármannsson var einu sinni framkvæmdastjóri fyrir, sem barðist árum saman fyrir að ná einmitt þessari flýtimeðferð í gegnum kerfið og geta leitt til endanlegra loka slíkra félaga, slita, án þess að knýja þau í gjaldþrot. Hvað skyldi sá ágæti hv. þingmaður segja í dag? Það er verið að berja hann til hlýðni eins og marga aðra þingmenn sjálfstæðismanna, verið að berja hann til að fylgja frumvarpi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ásamt ríkisskattstjóra hafa sýnt í sameiningu fram á að eyðileggur ákaflega virk og góð ákvæði í skattalögunum sem voru sett að frumkvæði Verslunarráðsins fyrir nokkrum árum.

Það eru undarleg endaskipti á hlutunum. Af því að ég heyri úr hliðarherbergi að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er kominn hingað og farinn að hlusta á umræður, væntanlega til að taka þátt í þeim, þá langar mig að leggja spurningu fyrir hv. þingmann. Fyrr í vetur flutti hann frumvarp sem miðaði að því að draga úr kostnaði við að stofna fyrirtæki. Hér liggur fyrir frumvarp með ranglátum nefskatti, sem leiddi til bændauppreisnar í Bretlandi 1643, eins og ég veit að hv. þingmaður man. Ef þetta frumvarp verður samþykkt þýðir það að kostnaðurinn við að stofna fyrirtæki eykst um einn tíunda, ríflega. Það bætast við 13.500 kr. Og það sem verst er, ef einhverjir af skjólstæðingum hv. þingmanns ætla sér að stofna fyrirtæki og ætla að gera það vel — kannski eftir þeim kúnstarinnar reglum sem menn hugsanlega læra uppi í háskóla þegar Pétur H. Blöndal sinnir þar stundakennslu, sem ég held að hann geri enn þá — ætla að rannsaka málið, ætla að vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera, þá munu þeir aldrei komast að því með því að fara í lagasafnið, t.d. í lög um skatt, því að annars staðar er kominn nýr feluskattur sem ríkisstjórnin þorir ekki að setja inn í skattalögin af því að hún vill fela nefskattinn. Þetta er algerlega andstætt því sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson stóð og reif sig hásan, alla vega niður í þind, í 45 mínútur fyrr á þessum vetri til þess að andæfa.

(Forseti (JóhS): Forseti vill vekja athygli hv. ræðumanns á því að forseti mun kalla til atkvæðagreiðslu innan einnar til tveggja mínútna. Hv. ræðumaður hefur þann kost að ljúka ræðu sinni á þeim tíma eða fresta henni til klukkan sex, vegna þess að á milli klukkan fjögur og sex er gert ráð fyrir þingflokksfundi.)

Frú forseti. Ég er nú eiginlega ekki byrjaður á hinni eiginlegu ræðu minni. Þetta er aðeins til að vekja eftirtekt á nokkrum staðreyndum og vekja eftirtekt á því að hér eru ágætir þingmenn að láta berja sig út í að samþykkja frumvarp sem er algerlega gegn því sem þeir eru búnir að segja hér í vetur. Ég undanskil hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, af því að ég veit að hann er tekinn þjösnalegum tökum af stjórnarliðinu til að skipta um skoðanir eftir því sem þarf. Ég hef ákveðna samúð með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni vegna þess að ég veit að hann hafði ákveðinn hugsjónaþrótt fyrir hinum litla í atvinnulífinu þegar hann lagði fram frumvarp sitt í vetur. Nú er hann píndur til að greiða atkvæði með vitleysu sem gengur alveg þvert á það sem hann sagði þá.

Frú forseti. Ég mun þá kjósa hið ágæta boð um að fresta ræðu minni.

(Forseti (JóhS): Hv. 1. þm. Reykv. n. frestar ræðu þá ræðu sinni.)