132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[16:00]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Vegna atkvæðagreiðslu um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, um kynferðisbrot, vil ég gera grein fyrir því að ég tel að 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins um nýtt orðalag á nauðgunarákvæðum 194. gr. almennra hegningarlaga tryggi ekki réttarvernd kynfrelsis, fyrst og síðast kvenna, og fullnægi ekki 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um friðhelgi einkalífs. Kynfrelsi sé með greininni skipað á lægri og lakari sess en öðrum einkalífsréttindum, svo sem bréfleynd, friðhelgi heimilisins og veitt lakari vernd en öðrum líkamsárásarbrotum.

Ég geri kröfu til þess að allsherjarnefnd íhugi þetta mál alvarlega og gaumgæfi vel og breyti orðalagi 1. mgr. 2. gr. Greiði ég atkvæði með því að frumvarpið fari til nefndar með þessu fororði.