132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fræg persóna úr íslenskum bókmenntum sagði í frægu bókmenntaverki: „Minn herra á öngvan vin.“ Þess vegna gleður það mig að það skuli af öllum mönnum vera hv. þm. Mörður Árnason sem í vináttuskyni við hæstv. menntamálaráðherra og mig kemur hér upp til þess að upplýsa mig um að þessar samþykktir hafi seint og um síðir komið fram. Ég er honum þakklátur fyrir að láta mig vita af því en það er svo að þessar samþykktir samkvæmt þeim greinum sem um þær fjalla, þ.e. 8., 9. og 11. gr., benda til þess að samþykktirnar ættu að vera stefnumarkandi fyrir RÚV. Auðvitað er ekkert slíkt að finna sem sýnir ásamt öðru að þetta frumvarp og verknaðurinn allur er í skötulíki. Hann er illa undirbúinn, hann er ekki hugsaður. Þetta frumvarp er lagt hérna fram og því á að þrýsta í gegn þó að skorti upplýsingar um fjárhagsstöðu, þó skorti ákvæði sem virði almennar reglur sem við höfum sett um meðferð opinbers fjár af þeirri ástæðu einni að það er pólitísk nauðsyn á því fyrir persónuna sem gegnir embætti mentamálaráðherra.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur engum málum komið hér í gegn einhverra hluta vegna, hugsanlega vegna þess að þau eru ekki nægilega vel undirbúin. Þetta er til marks um það og henni er það persónuleg nauðsyn sem stjórnmálamanni að ná þessu frumvarpi í gegn. Það er ekkert annað sem rekur á eftir því, engin þörf á að verið sé að ýta svona hálfköruðu verki í gegnum þingið.

Það er sem sagt fyrst og fremst hégómi hæstv. ráðherra sem ræður því að það á að kýla þetta mál í gegn jafnilla undirbúið og það er, eins og kemur fram í því að samþykktirnar komu ekki fram fyrr en eftir dúk og disk.