132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:29]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það séu orðnir sex eða sjö tímar síðan hv. þm. Össur Skarphéðinsson hóf ræðu sína og hefur farið vítt og breitt yfir þetta mál þannig að ekki er hægt að koma víða við í sjálfu sér í stuttu andsvari en það eru tveir þættir sem mig langaði aðeins að koma hér inn á.

Það er það sem kom fram í hans ræðu oftar en einu sinni að hann talar til starfsfólks Ríkisútvarpsins, til starfsfólks sem starfar hjá ríkinu þar sem um er að ræða stofnanir, mér finnst hann tala niður til þess fólks. Ég ætla að lýsa hvernig.

Hann talar um að þetta fólk sætti sig við að vera á lágum launum vegna þess að atvinnuöryggi sé mikið og lífeyrisréttindin séu betri en hjá öðrum og þetta er stofnun. Ég þekki margt fólk sem vinnur í stofnunum á vegum sveitarfélaga og ríkis og það hefur metnað til að vaxa í starfi og vinna vel og metnað til þess að komast upp metorðastigann, fá hærri laun og betri lífeyrisréttindi. Það er nákvæmlega það sem við erum að gefa fólki kost á á hinum almenna vinnumarkaði, þ.e. að efla sig, og gefa því frelsi og tækifæri til að vinna sig upp. Ég veit að hv. þingmaður ætlar sér ekki að tala með þessum hætti niður til fólks og við eigum ekki að gera það hér. En mér finnst þessi blær á að tala um stofnun með þeim hætti að þar sé hugsanlega fólk sem sætti sig við að vera á lágum launum af því að ekki sé ætlast til þess sama af því og öðrum, ég vil ekki að svona sé talað um fólk sem vinnur hjá stofnunum eins og hefur komið fram.

Ég vænti þess að það sé meiri metnaður innan Samfylkingarinnar og þess sem er formaður Samfylkingarinnar hverju sinni en að vilja bara lúra á stallinum (Forseti hringir.) á lágum launum.