132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:39]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við höfum verið að ræða hér í dag frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Hef ég setið undir allri þeirri umræðu sem farið hefur fram hér í dag og einnig er við ræddum þetta mál fyrir páska.

Það hefur komið skýrt fram frá þeim talsmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa fært rök fyrir því að þetta þingmál er í hálfgerðu skötulíki og þyrfti auðvitað að vinna mun betur. Það var tekið út úr menntamálanefnd í ósátt. Eru fulltrúar okkar í stjórnarandstöðunni sem sitja í nefndinni á því að málið hafi verið þar illa reifað og vanbúið að koma hér til umræðu. Það hefur auðvitað sýnt sig í umræðunni í dag, og líka þegar við ræddum það fyrir páska, að hér vantar margt upp á og að mörgum spurningum sem varpað hefur verið fram hér hefur ekki verið svarað.

Reyndar hafa félagar mínir í Samfylkingunni sem talað hafa í dag farið ítarlega yfir málið og þess vegna þarf ég ekki að hafa ræðu mína eins langa og ég taldi þar sem búið er að fara yfir ýmsa þætti sem ég tel ástæðulaust að endurtaka.

Ég tel hér vera um að ræða mjög alvarlegt mál sem mér er ekki sama um. Ég er gamall starfsmaður Ríkisútvarpsins, kom þangað fyrst til starfa fyrir 36 árum, mér er hlýtt til þess og margir af samstarfsmönnum mínum frá upphafi eru enn að störfum hjá Ríkisútvarpinu. Þess vegna langar mig aðeins til að byrja á að ræða um starfsmannaþáttinn vegna þess að það var líka það síðasta sem rætt var hér af þeim þingmanni sem talaði í málinu á undan mér og í þeim andsvörum sem voru áður en ég hóf ræðu mína. Þar var skipst á skoðunum um starfsmennina.

Mig langar að fara aðeins yfir ályktun sem almennur starfsmannafundur Ríkisútvarpsins sendi frá sér eftir að þessi umræða hófst í þinginu, ályktun sem ég geri ekki ráð fyrir að hafi komið til umræðu í menntamálanefnd þegar málið var þar til umfjöllunar vegna þess hve seint hún barst okkur. En hún lýsir vel afstöðu starfsmannanna til þessa frumvarps og áhyggjum þeirra vegna þess hvernig það er útbúið.

Í þessari ályktun sem starfsmennirnir senda frá sér eftir starfsmannafund óska þeir eftir því að fá skýrari upplýsingar frá stjórnvöldum um það hvernig fyrirtæki stjórnvöld vilja búa til á grunni hins gamla Ríkisútvarps. Mig undrar ekki að þeir spyrji um það vegna þess að það er ákaflega óljóst eins og hefur vel komið fram í umræðunni. Hér er talað um að þetta fyrirtæki eigi að verða hlutafélag sem er ákaflega umdeild leið. Þeirri hugmynd sem við í Samfylkingunni höfum talað fyrir er hafnað, að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun sem er fyrirkomulag sem hefur gefist mjög vel. Það þekkjum við frá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa verið reknar undir því formi. Ég vil nefna t.d. mörg hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu sem hafa einmitt verið rekin með því fyrirkomulagi.

Starfsmennirnir á starfsmannafundinum benda á að mörg opin ákvæði séu í frumvarpinu og mismunandi áherslur ríkisstjórnarflokkanna í málefnum stofnunarinnar til margra ára. Það er alveg rétt. Framsóknarflokkurinn hefur alveg þangað til núna viljað standa vörð um Ríkisútvarpið en hann hefur greinilega orðið undir þegar þetta mál var keyrt í gegnum ríkisstjórnina. Hér lýsa starfsmennirnir áhyggjum sínum yfir því. Þetta hefur sem sagt endað í frumvarpinu sem er í rauninni, eins og þeir benda á, óútfyllt ávísun til framtíðar.

Þeir segja hér, starfsmennirnir, með leyfi forseta.

„Við teljum okkur vera í vinnu hjá þjóðinni og landsmenn eigi rétt á því að vita hvert stefni með fjölmiðilinn þeirra.“

Þetta er alveg rétt. Landsmenn eiga rétt á því að vita hvert stefnir. Það hefur komið fram hér í umræðunni í dag — ég vil minna á að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi það í framsögu sinni þar sem hún fór yfir málið — að það eru margir lausir endar, t.d. hvað varðar pólitísk afskipti, þau verða áfram, afskipti stjórnvalda yfir stofnuninni eins og búið er um hnútana í þessu frumvarpi.

Það er ýmislegt annað sem er líka áhyggjuefni, nefskatturinn og fjármögnunin sem ég tel vera afleita leið. Við í Samfylkingunni höfum bent á það að þetta er óréttlát leið. Eins og kemur fram í minnihlutaálitinu sem hv. þm. Mörður Árnason mælti fyrir hér fyrir páska eru ekki miklar líkur á því að það verði mikil sátt og samstaða með Ríkisútvarpinu þegar búið er að setja þennan óréttláta nefskatt. Ég ætla aðeins að koma inn á hann á eftir vegna þess að við í Samfylkingunni teljum nefskatt vera ákaflega óréttláta skattlagningu. Það hefur sýnt sig t.d. í nefskattinum sem gengur til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Nefskattar hafa oftar en ekki ekki skilað sér til þeirra verkefna sem þeim er ætlað. Við þekkjum það þegar að þrengir að í ríkisrekstrinum koma bandormar inn í þingið þar sem kveðið er á um það að þrátt fyrir að ákveðinn skattur eigi að fara til ákveðinna málefna skuli ekki nema hluti af því sem innheimt hefur verið ganga til þess verkefnis sem ætlast er til. Við þekkjum það með Framkvæmdasjóð aldraðra þar sem það hefur gerst ítrekað á a.m.k. undanförnum 10–12 árum og jafnvel lengur að þessi skattur hefur ekki skilað sér til þeirra verkefna sem honum var ætlað. Auðvitað er það líka áhyggjuefni þegar hann snýr að Ríkisútvarpinu.

Ég átti sæti í útvarpsráði í átta ár og þegar afnotagjöldin voru gagnrýnd kom þessi leið oft til umræðu. Þá var það helsta áhyggjuefni ríkisútvarpsmanna að nefskatturinn væri skattur sem ekki mundi skila sér á réttan stað. Það er ekkert skrýtið að menn hafi áhyggjur af því.

Það er líka áhyggjuefni, finnst mér, í sambandi við þetta frumvarp að engin ákvæði eru um að auka innlenda dagskrárgerð sem ég tel vera mjög mikilvægt atriði í allri þjónustu Ríkisútvarpsins, að sinna innlendri dagskrárgerð, sérstaklega hvað snýr að ungu fólki og börnum. Ríkisútvarpið hefur ákveðið uppeldishlutverk og því ber að sinna menningarþættinum. Það hefur ákveðnar skyldur í þá átt og það er enginn metnaður hjá menningarmálaráðherra þjóðarinnar til að auka þann þátt sem snýr að innlendri dagskrárgerð. Ég furða mig á því, það vantar allan metnað í þá átt. Áfram á að reka Ríkisútvarpið af almannafé en sem sagt stendur núna til að fara þá umdeildu leið sem nefskatturinn er.

Þess má geta að eftir að einkaleyfi Ríkisútvarpsins var afnumið 1986 urðu deilur um einmitt það hvernig Ríkisútvarpið var fjármagnað og ýmis fleiri deiluefni komu í kjölfarið vegna samkeppnisstöðu þeirra sem komu sem frjálsir fjölmiðlar inn á markaðinn.

Ég var að fjalla um starfsmennina og ætla að gera það aðeins áfram. Þeir segja í ályktun starfsmannafundarins að þeir geri alvarlegar athugasemdir við að ekki liggi enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið á að ráða yfir í upphafi. Það hefur einmitt verið komið aðeins inn á það hér í dag hvað allt er óvíst um peningalegu hliðina. Það kom einmitt fram hér í umræðunni fyrr að ekki hefur verið upplýst hver fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er, það er ekki vitað, og í ljósi þess er ekki hægt að skrá þetta hlutafélag á hlutafélagamarkaði.

Starfsmenn segja í ályktun sinni að þeir furði sig á því að ekki hafi verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd Alþingis og spyrja um tilganginn með því að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjöf. Það er auðvitað niðurlægjandi og algjör vanvirðing við þá sem eru beðnir að senda inn umsagnir að ekki skuli vera farið yfir þær og ekki kallaðir til allir þeir sem ástæða þykir til að kalla til þegar svona stórt mál er til umfjöllunar í nefnd eins og þetta mál Ríkisútvarpsins sem var til umfjöllunar í menntamálanefnd. Það er ámælisvert, finnst mér, og ég furða mig á því að stjórnarliðar í nefndinni skuli kasta þannig til höndunum við umfjöllun í nefndinni. Ég trúi því ekki að þetta mál verði samþykkt á Alþingi án þess að verða kallað aftur til nefndarinnar. Það er auðvitað full ástæða til að gera það því að svo margar athugasemdir hafa komið um málið bara hér í umfjölluninni og kemur náttúrlega vel í ljós að þetta mál er alls ekkert útrætt. Ég leyfi mér að efast um að umræða um málið hafi verið nokkur í menntamálanefnd. (MÁ: Engin.) Engin, segir fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, Mörður Árnason. Það er alveg ljóst að hún hefur engin verið. Það er afleitt þegar svona mál eru til umfjöllunar í nefndum að ekki skuli vera umræða um málin innan nefndarinnar áður en þau eru afgreidd þaðan. Það er kannski ástæðan fyrir því að það þarf að taka svona langan tíma á þingi í að ræða mál eins og þetta. Svo kvarta menn yfir því að þingmenn tali lengi. Ég furða mig á slíkum athugasemdum þegar ljóst er að engin umræða fór fram í nefndinni um málið. Ég skil vel þá þingmenn sem er annt um Ríkisútvarpið, eru jafnvel gamlir starfsmenn, að þeim sé dálítið niðri fyrir og þeim liggi mikið á hjarta hér í ræðustól Alþingis þegar málið er til umfjöllunar í ljósi þess hvernig málið kemur inn í þingið frá menntamálanefnd.

Ég er enn að fjalla hér um ályktun starfsmannafundarins og þeir segja hér að það sé lágmarkskrafa að réttindi starfsmanna verði tryggð, sérstaklega fullur biðlaunaréttur, aðild allra starfsmanna að LSR og áframhaldandi aðild starfsmanna að núverandi stéttarfélögum innan Ríkisútvarpsins. Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa um árabil þolað láglaunastefnu og talið að réttindin sem eru eign starfsmanna mundu að einhverju leyti vega upp á móti lágum launum. Þetta eru atriði sem voru einmitt til umræðu í andsvörum áðan. Hér eru starfsmennirnir auðvitað að lýsa því að þeir voru tilbúnir og hafa starfað lengi við Ríkisútvarpið þrátt fyrir að laun hafi verið lægri en á öðrum fjölmiðlum vegna þess að þeir öðluðust ákveðin eftirlaun og réttindi sem þeir mátu meira en þau laun sem þeir höfðu. Það er auðvitað afleitt, eins og komið hefur í ljós, að það er algjör óvissa um það hver réttindi þeirra verða eftir að frumvarpið verður að lögum, sem ég vona nú að verði ekki.

Hér var einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins að tala um að talað væri niður til opinberra starfsmanna og niður til starfsmanna Ríkisútvarpsins. Mér finnst þessi framkoma niðrandi við þá dyggu starfsmenn Ríkisútvarpsins sem hafa starfað þar áratugum saman, margir hverjir, og standa núna frammi fyrir því að réttindi þeirra eru í algjöru uppnámi og þeir vita ekkert hver þessi réttindi verða, réttindi sem þeir telja auðvitað eign sína. Það væri fróðlegt að vita hvernig hæstv. menntamálaráðherra ætlar að standa að því að tryggja þessi réttindi. Hafa farið fram einhverjar viðræður við starfsmenn Ríkisútvarpsins um þau? Eru einhverjir samningar tilbúnir eða á að fara að semja við þá um biðlaun og annað sem þeir kalla hér eftir? Það væri fróðlegt að vita, frú forseti, hvort hæstv. menntamálaráðherra fylgist með þessari umræðu. Ég hef ekki orðið vör við að menntamálaráðherra hafi svarað nokkurri einustu spurningu sem hefur komið fram í dag og varla látið svo lítið að vera í þinghúsinu, a.m.k. hefur hún ekki komið inn í þingsalinn allan þann tíma sem þetta hefur verið rætt frá því að þing hófst hér um hádegið þótt ég hafi séð að hún væri stimpluð inn í þinghúsið þegar þingflokksfundir voru haldnir hér síðdegis.

Ýmsar spurningar vakna þegar maður fer yfir þetta mál og full ástæða er til þess að fá svör frá hæstv. ráðherra. Ég tek líka eftir því að formaður menntamálanefndar, sem er náttúrlega með forræði á málinu hér við 2. umr., lætur ekki svo lítið að vera viðstaddur þegar verið er að ræða þessi mál. (Gripið fram í.) Er hann í húsinu, frú forseti, eða hæstv. menntamálaráðherra, er hún í húsinu?

(Forseti (JBjart): Hv. formaður menntamálanefndar Sigurður Kári Kristjánsson er ekki í húsi eins og er. Sama gildir um hæstv. menntamálaráðherra. Ef hv. þingmaður óskar hins vegar eftir því að hv. formanni menntamálanefndar og hæstv. ráðherra verði gert viðvart að viðveru þeirra sé óskað í þingsal er sjálfsagt að forseti komi því til skila.)

Á það að þurfa þegar verið er að ræða svona mikilvægt mál að þingmaður sem stendur í pontu og er með fyrirspurnir til stjórnarliða sem hafa þröngvað málinu inn í þingið í ósátt í nefndinni kalli eftir því að stjórnarliðar séu viðstaddir, þeir sem bera ábyrgð á málinu, þar á meðal formaður nefndarinnar? Finnst stjórnarliðum þetta við hæfi? Ég spyr. Mér finnst lágmark að formaðurinn sitji hér og hlýði á þær fyrirspurnir sem koma fram hjá ræðumönnum. Það er greinilega ekki bara verið að sýna starfsfólki Ríkisútvarpsins lítilsvirðingu. Það er verið að sýna öllum þeim sem eru í umræðunni algjöra lítilsvirðingu með því að sjá ekki sóma sinn í því að vera hér viðstaddir þegar rætt er jafnmikilvægt mál og framtíð Ríkisútvarpsins sem er sameign allrar þjóðarinnar, þetta menningarfyrirtæki sem við eigum öll saman og sem á nú að fara að gera söluvænt með þessu frumvarpi. (MÁ: Kalla á formanninn.) Að sjálfsögðu á að kalla hér á formanninn. Ég óska eftir því formlega að það verði kallað á hann og hann verði hér viðstaddur.

Ég hef líka ýmsar fyrirspurnir til hæstv. menntamálaráðherra sem ég tel fulla ástæðu til að fá svarað. Ég hef tekið eftir því að hún hefur ekki svarað nokkurri einustu spurningu sem hefur komið hér fram í dag, enda ekki komið inn í þingsalinn. Ég velti fyrir mér hvort ég eigi að bíða hér eftir því að hv. þingmaður, formaður menntamálanefndar, sjái sóma sinn í að sýna sig í þinghúsinu. Ef menn hafa ekki tíma til að vera við umræðuna þýðir ekkert að halda henni áfram, við skulum bara hætta þessu, fresta fundi þangað til stjórnarliðar sem eru búnir að koma þessu máli hérna inn í þingið í þessum búningi eru tilbúnir til að vera hér og hlusta.

Ég verð að segja bara eins og starfsmenn Ríkisútvarpsins í ályktuninni að þeir hafi sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar. Ég hef sýnt bara nokkra þolinmæði hér við að hlusta á allar umræðurnar í dag og allar þær spurningar sem hæstv. menntamálaráðherra hefur fengið án þess að nokkur komi til að svara þeim. Halda menn að þetta sé bara einhver leikur eða eitthvert grín? Þetta er alvarlegt mál sem við erum að ræða hér, framtíð Ríkisútvarpsins, og það er lágmark að stjórnarliðar sjái sóma sinn í að vera viðstaddir umræðuna.

Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, hafi séð þessa ályktun þannig að ég ætla aðeins að halda áfram að fjalla um hana þangað til hann sér sóma sinn í að mæta hér. Ég vil gjarnan fá upplýsingar um það hvort hann — ég fagna því að hann er kominn hér í hliðarherbergi. (Gripið fram í.) Það er gott að hv. þingmaður er búinn að heyra hana alla og hann hefur gott af því að hlusta á hana, herra forseti.

Eins og ég sagði hér áðan segja starfsmennirnir í ályktun sinni að þeir hafi sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar, og það er rétt. Það hefur verið von þeirra að betri tímar gætu runnið upp að því loknu, en það versta sem fyrir gæti komið er áframhaldandi óvissa næstu árin vegna þess að ný lög hafi ekki verið nógu vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem duga.

Þetta er það sem við í stjórnarandstöðunni og minni hluti menntamálanefndar krefjumst líka. Við höfum sýnt fram á, bæði í minnihlutaálitinu og í umræðunum hér, að þetta frumvarp er handónýtt og það á að vísa því frá enda erum við með frávísunartillögu. Ef ekki verður það að fara til nefndarinnar og vinnast betur því að það er ekki hægt að bjóða almenningi, eigendum Ríkisútvarpsins, upp á það að málið fari og verði samþykkt sem lög í þessum búningi.

Fyrst að hv. formaður nefndarinnar er mættur þá er ég hér með fyrirspurn sem ég óska eftir að fá svar við. Það er svo að virtir endurskoðendur og lögfræðingar hafa sagt við mig að það sé ekkert hægt að gera í rekstrinum hjá Ríkisútvarpinu í þessum nýja búningi sem ekki er hægt að gera í núverandi rekstrarformi. Hér er alltaf verið að tala um að það eigi að fara að bæta og gera reksturinn sveigjanlegri en sérfræðingar segja að það sé ekkert sem ekki er hægt að gera við núverandi rekstrarform sem sé auðveldara við þá tegund hlutafélags sem lögð er til hér. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað vinnst við þessa breytingu? Hvaða rekstrarhagræðingu gefur breytt rekstrarform? Hvað verður hægt að gera sem ekki er hægt að gera núna? Það hefur enginn svarað því. Ég hef ekki orðið vör við að það hafi komið nein svör við þeirri spurningu. Þessu verður að svara afdráttarlaust. Það er verið að leggja upp í mikinn leiðangur og það er ekki einu sinni hægt að upplýsa hvað vinnist við breytingarnar.

Við höfum bent á það hér, fulltrúar Samfylkingarinnar, að við þessa breytingu er ekki skapaður til frambúðar sá starfsrammi sem Ríkisútvarpinu hæfir. Með þessu frumvarpi kemur ekki sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu er nauðsynlegur og starfsmennirnir kalla eftir í sinni ályktun. Við teljum að verið sé að stíga mjög varhugavert skref með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi — við þekkjum að þegar ríkisfyrirtæki hafa verið gerð að hlutafélögum hefur sala yfirleitt komið í kjölfarið. Eins og starfsmennirnir benda líka á, og margir sem talað hafa hér á undan mér, eru margir lausir endar í frumvarpinu og málatilbúnaði í tengslum við það og vil ég þá nefna sérstaklega það sem kom hér fram áðan í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar sem hann talaði um þjónustusamninginn, hann hefur hvergi komið fram, hann er aðeins nefndur á einum stað. Og samþykktirnar sem vísað er til — það kom fram í andsvari að ekki er tekið á þeim þáttum sem vísað er til í frumvarpinu hvað varðar þessar samþykktir.

Við höfum verulegar efasemdir um að ríkisútvarp sem á að starfa eftir þeim lögum sem verða til ef þetta frumvarp verður samþykkt, sem ég vona að verði ekki, verði raunverulegt almannaútvarp. Ég verð að segja að ég hef verulegar áhyggjur af því ákvæði í lögunum þar sem gert er ráð fyrir að einungis verið rekin ein útvarpsrás og ein sjónvarpsrás, það er ákvæði um það. Ég hef einnig áhyggjur af framtíð Rásar 2, en ég tel Rás 2 vera mjög mikilvægan þátt í rekstri Ríkisútvarpsins. Ég hef áhyggjur af framtíð íslenskrar dægurtónlistar t.d. ef Rás 2 verður ekki rekin áfram. Ef maður fylgist með útvarpi á þeim rásum sem leika létta tónlist verður maður var við að Rás 2 hefur sinnt íslenskri dægurtónlist mjög vel og kynnt hana, gert það frá því að hún var sett á laggirnar 1986. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera með þætti á Rás 2 og þar var unnið mikið og gott starf í þágu íslenskrar dægurtónlistar og er enn.

Ég veit að nokkrir af stjórnarliðum, og þar með talinn hv. formaður menntamálanefndar, eru á þeirri skoðun að það eigi að selja Rás 2 og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað ályktað um það. Það er því áhyggjuefni að rekstur og framtíð Rásar 2 skuli ekki vera tryggð í þessu þingmáli.

Það er líka verulegt áhyggjuefni að halda á áfram pólitískum afskiptum. Við höfum lýst því yfir í Samfylkingunni og það kemur vel fram í greinargerð með þingmáli okkar um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp — ég er einn af flutningsmönnum þess en hv. þm. Mörður Árnason er 1. flutningsmaður — sem var lagt fram á síðasta þingi. Þar höfum við einmitt bent á að það hafi verið bagalegt fyrir Ríkisútvarpið hve mikil pólitísk afskipti hafa verið af því. Það er ekki að ástæðulausu að ríkissjónvarpið skuli hafa fengið nafnið Bláskjár á sínum tíma. Í greinargerð með þingmáli okkar segir, og ég ætla að lesa upp úr greinargerðinni með því. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá hefur einn stjórnmálaflokkanna, Sjálfstæðisflokkurinn, lagt á það kapp síðustu tvo áratugi að koma flokksmönnum sínum í sem flestar lykilstöður innan Ríkisútvarpsins og ráða þar dagskrá í veigamiklum atriðum. Flokkurinn hefur haft yfirstjórn Ríkisútvarpsins með höndum í menntamálaráðuneytinu og innan meiri hluta útvarpsráðs í 16 ár af þeim 19 sem liðin eru frá upphafi nútímans í útvarpsmálum á Íslandi 1985. Tök flokksins á Ríkisútvarpinu hafa dregið úr faglegum styrk þess, veiklað vinnuanda innan Ríkisútvarpsins og dregið úr trausti almennings í garð þess. Til að Ríkisútvarpið geti gegnt hlutverki sínu sem almannaútvarp þarf þessu ástandi að linna.“

Þessi orð sem ég les upp úr greinargerð með þingmáli okkar um Ríkisútvarpið frá því í fyrra eiga við í dag. Það er ljóst að þessu mun ekki linna með því frumvarpi sem við erum að ræða hér því að áfram á stjórnarmeirihluti á Alþingi að kjósa meiri hluta stjórnar, þeir eiga að fá þrjá af tveimur þó að í mjög mörgum umsögnum hafi verið lagt til að hafa annan hátt á. Það hefur ekkert verið hlustað á þá sem hafa gert athugasemdir við þetta efni við nefndina. Stjórnin, sem er ákveðin af meiri hluta á þingi, ræður öllu, hún ræður útvarpsstjórann og verkefnum hans og þannig verður útvarpsstjórinn háður stjórnvöldum og það er auðvitað afleitt. Eins og minnst hefur verið á hér í dag hefur í mörgum umsögnum sem bárust nefndinni verið bent á að full ástæða sé til að hafa fleiri fulltrúa í stjórninni, fulltrúa eigenda, fulltrúa almennings. ASÍ benti á að sjálfstæði stofnunarinnar væri mjög mikilvægt og það ætti að heimila félagasamtökum að eiga fulltrúa í stjórninni. Hollvinasamtökin hafa bent á að þarna beri að hafa akademíska stjórn. Stjórn Blaðamannafélagsins hefur líka bent á að það sé mikilvægt að stofnunin hafi sjálfstæði og bendir á að t.d. í norska ríkisútvarpinu NRK sé níu manna stjórn og þar séu þrír frá starfsmönnum. Það hafa fleiri bent á að full ástæða sé til að starfsmenn fái fulltrúa í stjórn. Stjórn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins hefur líka óskað eftir því að þar komi inn fulltrúar frá þeim, og aðrir fulltrúar almennings ættu auðvitað að koma þangað.

Ekki eru nein ákvæði um það til hversu langs tíma útvarpsstjóri eigi að vera skipaður. Það væri fullkomlega eðlilegt að um hann giltu sömu reglur og um aðra yfirmenn ríkisstofnana, t.d. að ráða hann til fimm ára eins og er með þjóðleikhússtjóra. Það er ekki það sem Ríkisútvarpið þarf núna að það skapist tortryggni um stofnunina, það er nóg komið af slíku. Það þarf trúverðugleika og það þarf að ríkja traust gagnvart stofnuninni. Það gerist ekki meðan pólitísk afskipti eru eins og gert er ráð fyrir.

Það er full ástæða til þess að minnast aðeins meira á íslenskt efni. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa bent á að hlutur innlendrar kvikmyndagerðar hefur minnkað í Ríkisútvarpinu. Þar ætti Ríkisútvarpið auðvitað að vera í fararbroddi og á því ætti að taka sérstaklega. Menntamálaráðherra ætti að hafa metnað í þá veru að auka íslenska kvikmyndagerð. Sama verður eiginlega að segja um barnaefnið og ég nefndi það áðan að Ríkisútvarpið hefur mikilvægt uppeldishlutverk. Barnaefni á að endurspegla þann íslenska veruleika sem við lifum í. Börn sem t.d. fylgjast með sjónvarpi og sjá alltaf erlendar myndir, erlendar teiknimyndir, myndir úr allt öðrum veruleika en þau alast upp í — á vissan hátt er verið að svíkja þau því að þau eiga rétt á því að fá umfjöllun um lífið eins og það er á Íslandi. Það hefur líka komið í ljós í könnunum að barnaefni er mjög lítið, það er jafnvel bara í örfáar mínútur á hverjum degi sem íslenskt barnaefni er á boðstólum fyrir börn hér á landi. Mest er þetta talsett erlent efni sem börnum er boðið upp á.

Ég spyr, frú forseti: Telja menn það ásættanlegt að Ríkisútvarpið, almannaútvarpið sem hefur miklu menningarlegu hlutverki að gegna, skuli ekki hafa meiri metnað en svo að ekki sé boðið upp á íslenskt barnaefni? Ég furða mig á að nýr mennta- og menningarmálaráðherra skuli ekki hafa meiri metnað en frumvarpið sýnir hvað þetta varðar.

Eins og ég nefndi í upphafi erum við í Samfylkingunni ósátt við þetta rekstrarform, hlutafélagaformið sem á að fara að setja á Ríkisútvarpið. Það rekstrarform hefur venjulega hagnað að leiðarljósi en ekki almannaþjónustu. Þar hefur sjálfseignarformið verið farsælla. En það sem ég verð nefna hér alveg sérstaklega er upplýsingaþátturinn. Það er algjörlega óviðunandi að hér skuli ekki gilda upplýsingalög og að menn geti ekki kallað eftir upplýsingum á Alþingi frá þessari stofnun.

Þegar Póstur og sími var gerður að hlutafélagi og var að öllu leyti í eigu ríkisins þá var öll upplýsingagjöf stöðvuð til þingmanna. Það er mjög erfitt fyrir þingmenn sem eiga að veita stjórnvöldum aðhald, staða stjórnarandstöðunnar er að veita stjórnvöldum aðhald, að geta ekki kallað eftir neinum upplýsingum. Þegar þetta hefur verið gagnrýnt í umræðunni hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal talað um að í breytingartillögu eða frumvarpi frá honum sé lagt til að þingmenn geti komið með skriflegar fyrirspurnir á aðalfundi. Þetta er gjörsamlega óviðunandi og ekki boðlegt.

Ég vil nefna varðandi upplýsingagjöf um hlutafélag í ríkiseigu að þegar Póstur og sími var slíkt félag og kallað var eftir upplýsingum þá lögðum við þingmenn Samfylkingarinnar fram frumvarp um breytingu á lögum til að tryggja að hlutafélögum sem væru að hluta til eða að öllu leyti í eigu ríkisins, bæri að veita Alþingi sömu upplýsingar um opinber málefni og ríkisfyrirtækjum. Þetta frumvarp erum við búin að flytja ítrekað. Það hefur aldrei fengist afgreitt úr nefnd. Mælt hefur verið fyrir því nokkrum sinnum en það hefur ekki fengist samþykkt. En það væri full ástæða til þess að koma einmitt með slíka breytingu núna ef menn ætla að keyra þetta mál í gegn. Ég er þá að vísa til breytingar á hlutafélagalögum en það liggja reyndar slíkar breytingar fyrir þinginu og mætti skoða þær þegar breyting hv. þm. Péturs Blöndals verður hér til umfjöllunar, ef hún fær afgreiðslu.

Ég sagði áðan að ég vildi gjarnan koma aðeins inn á þennan rangláta nefskatt og benti á að slíkir skattar skila sér oftast ekki til þess verkefnis sem þeir hafa verið settir til eins og hjá Framkvæmdasjóði aldraðra, sem er talandi dæmi um svona nefskatt. Hann lendir líka mjög ranglátlega á fólki. Til dæmis, af því að á nú að fara að sömu reglum og um nefskattinn í Framkvæmdasjóð aldraðra, þá greiða þeir sem orðnir eru sjötugir ekki til Ríkisútvarpsins, sama hversu efnaðir þeir eru. Hálaunamenn sem komnir eru yfir sjötugt þurfa ekki að borga neitt en ungu barnafjölskyldurnar eða fólk á miðjum aldri með meðaltekjur og jafnvel með mörg börn á heimili þarf að borga fyrir hvern og einn. Þessi nefskattur sem fara á að setja á fólk er því ákaflega óréttlátt gjald.

Það hefur líka verið bent á að 22 þúsund lögaðilar þurfi að greiða þennan skatt og þar af eru 13 þúsund svokölluð sofandi fyrirtæki. Þessi fyrirtæki eru ekki starfandi en verða krafin um þessi gjöld og munu því fá dráttarvexti. Það verður dýrt fyrir ríkið að innheimta þennan skatt. Ríkisskattstjóri benti á í umsögn sinni að þetta gæti hrakið mörg þessara fyrirtækja út í gjaldþrot og það er ríkinu líka mjög dýrt, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á í ræðu sinni hér á undan og ég ætla ekki að endurtaka.

Ég hef bent á öryrkjana í umræðunni um nefskattinn því að allir öryrkjar þurfa að borga þennan nefskatt enda þótt að aldraðir yfir sjötugt greiði hann ekki. Þetta verður íþyngjandi fyrir öryrkja, sérstaklega þá sem hafa lítið annað en almannatryggingagreiðslur. Aldraðir undir sjötugu hafa margir hverjir lítið meira en almannatryggingagreiðslurnar. Tíu þúsund aldraðir eru með tekjur um 100 þús. kr. á mánuði og þetta fólk, sem ekki er orðið sjötugt, þarf að fara að greiða þennan nefskatt. Það er verulega íþyngjandi fyrir hjón t.d. að fá þennan skatt ofan á aðra skattheimtu og tekjutengingar lífeyrisgreiðslna. Þarna er enn einu sinni verið að ráðast að hópum eins og öryrkjum og öldruðum sem eru á lægstu greiðslunum.

Það er ýmislegt hér sem ég ætlaði að ræða en búið er að fara ágætlega yfir af félögum mínum sem töluðu á undan mér og ég ætla því ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega. Þó vil ég nefna nokkur atriði í nefndarálitinu sem ég ætla að leggja áherslu á og eru áhyggjuefni hvað varðar þessa lagasetningu. Þar er bent á að þessi lagarammi dugi Ríkisútvarpinu líklega ekki til lengdar. Það er verulegt áhyggjuefni því að við vitum að þróunin hjá Evrópusambandinu er mjög ör á þessu sviði og við þurfum auðvitað að fylgjast með því sem þar er að gerast.

Við viljum líka að losað verði um flokkspólitísku tökin á Ríkisútvarpinu eins og ég nefndi áðan. Það gerist ekki með þessu frumvarpi óbreyttu. Það skapast ekki frekari sátt um Ríkisútvarpið með þessu frumvarpi. Á það hefur líka verið bent að menntamálaráðherra virðist ætla að keyra málið í gegn vegna þess að hún hefur ekki náð neinu máli í gegnum þingið frá því hún varð ráðherra og þess vegna skuli þetta mál fara í gegn hvað sem tautar og raular. Ég ætla að vona að skynsemin verði látin ráða þegar þetta mál er annars vegar því það er áhyggjuefni ef það fer í gegnum þingið á þessum nótum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra en minni á að Ríkisútvarpið er ein dýrmætasta sameign þjóðarinnar og almenningur treystir því betur en öðrum miðlum í fréttaflutningi og sömuleiðis er það mikilvægur miðill í fróðleik og öðrum menningarlegum þáttum. Við verðum að hugsa vel um hvað við gerum með Ríkisútvarpið sem við erum búin að eiga í 76 ár. Við megum ekki láta eitthvert óðagot og óþreyju í menntamálaráðherra verða til þess að þetta mál fari í gegnum þingið eins og það lítur út nú. Ég treysti því að menn sjái til þess að málið fari aftur til nefndarinnar og þeir þættir sem hafa verið gagnrýndir hér verði skoðaðir betur. Þar held ég að kalla þurfi til bæði Ríkisendurskoðun og Samkeppniseftirlitið eins og stjórnarandstaðan bendir á í nefndaráliti sínu, því að þeir aðilar fengust ekki kallaðir til nefndarinnar og auðvitað þarf að fá miklu nánari upplýsingar um ýmsa þætti sem koma fram í minnihlutaálitinu.

Ég læt máli mínu lokið og vonast til að hæstv. ráðherra svari þeim fyrirspurnum sem ég bar fram í máli mínu áðan nema hv. formaður menntamálanefndar sé með svör á takteinum við þeirri fyrirspurn sem ég bar fram til hans sem snýr að því hvað rekstrarformið í frumvarpinu gerir sem núverandi rekstrarform stofnunarinnar getur ekki gert til að bæta og hagræða.