132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:27]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í upphafi ræðu sinnar lýsti hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir því yfir að vinnubrögð stjórnarmeirihlutans í hv. menntamálanefnd hefðu verið ámælisverð. Þessari yfirlýsingu mótmæli ég algerlega sem rangri, vegna þess að hún stenst enga skoðun frekar en fleiri yfirlýsingar og fullyrðingar sem fram komu í ræðu hv. þingmanns.

Því var haldið fram að málið hefði ekki verið rætt í nefndinni. Hvernig má það vera að frumvarp eins og þetta, sem er til meðferðar í nefnd í rúma tvo mánuði á átta eða níu fundum sé ekki rætt þar? (Gripið fram í: Það hefur aldrei verið rætt.) Hvernig má það líka vera að það sé eitthvað athugavert sé við það að málið sé afgreitt úr nefndinni í ósátt við stjórnarandstöðuna? Það er ekkert nýtt að slíkt sé gert. Við erum oft ósammála um efnisatriði einstakra mála og það er nú kannski vegna þess að við skipum okkur í mismunandi stjórnmálaflokka.

Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á að ekki voru allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar ósáttir við að málið yrði afgreitt úr nefndinni. Ég minni á að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, sem er formaður þingflokks Frjálslynda flokksins, var sammála því að ljúka afgreiðslu málsins innan nefndarinnar. Af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að málið var fullrætt þar og ekkert ámælisvert við þau vinnubrögð.

Að lokum langar mig að varpa fram spurningu til hv. þingmanns, vegna þess að hún lýsti því yfir að ekki hefðu allir umsagnaraðilar sem skiluðu inn umsögnum og óskuðu eftir að koma fyrir nefndina verið kallaðir fyrir nefndina: Hvaða umsagnaraðilar voru ekki kallaðir fyrir nefndina?