132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:30]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að koma hér upp til að svara þeirri fyrirspurn sem ég lagði fyrir hann varðandi grundvallaratriði sem snúa að þeirri lagasetningu sem hv. þingmaður mælir hér fyrir, og standa vörð um ráðherrann sinn sem sér ekki sóma sinn í því að koma hér inn í þingið meðan verið er að ræða þetta hér.

Það hefur komið fram hjá þeim fulltrúum sem sitja í nefndinni að málið var ekkert rætt milli nefndarmanna. Það getur vel verið að það hafi verið rætt við einhverja gesti, það er náttúrlega venjan ef það koma fyrirspurnir frá nefndarmönnum til gestanna. En málið var ekkert rætt og þess vegna er svona löng umræða hér í þinginu vegna þess að það er ekki búið að ræða málið til hlítar. Sú umræða á auðvitað að fara fram í nefndinni, hún á ekki að koma hér öll inn í þingið, þó að það sé svo sem ágætt. Ég hef ekki heyrt annað en að fulltrúar í stjórnarliðinu kvarti og kveini yfir því að þingmenn viðri hér skoðanir sínar og þeim sé dálítið niðri fyrir þegar verið er að ræða hér jafnmikilvægt mál og rekstrarform Ríkisútvarpsins.

Svo talar hv. þingmaður um að það sé ekkert óeðlilegt að ósætti sé milli stjórnar og stjórnarandstöðu um ýmis mál. Það er auðvitað alveg rétt. En ég hefði talið að það þyrfti að vera sátt um mál eins og Ríkisútvarpið. Þetta er sameign allrar þjóðarinnar og það er mikilvægt að sátt ríki um þá stofnun. Það þarf að vinna þannig í nefndinni að svo sé og ég gagnrýni að það skuli ekki hafa verið gert.

Varðandi umsagnaraðila þá getur vel verið að það hafi verið misskilningur hjá mér að þessir aðilar sem ég nefndi hafi ekki komið fyrir nefndina en verið með umsögn. Ég veit a.m.k. að óskað var eftir því að fleiri kæmu fyrir nefndina og það var ekki orðið við því að því er mér skildist. Ég tel mikilvægt að mál eins og rekstrarform Ríkisútvarpsins sé ítarlega rætt í nefnd og það náist sátt um það þegar það kemur úr nefndinni en ekki að málið sé rifið út í ósætti (Forseti hringir.) þegar slík almannaeign er til umfjöllunar.