132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:34]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður viðurkenndi að hann neitaði nefndinni um að fá bæði Ríkisendurskoðun og Samkeppniseftirlitið inn þó svo að þingmenn sem sátu í nefndinni hefðu talið fulla ástæðu til þess að fá þessa aðila til að fjalla um málið. Það er ekki formannsins að meta það hvort ástæða sé til að fá Ríkisendurskoðun eða Samkeppniseftirlitið til að fjalla um málið. Hann á auðvitað að verða við því þegar nefndarmenn telja ástæðu til þess að fá þá aðila.

Auðvitað samþykkir formaður nefndarinnar ekki að störf nefndarinnar hafi verið ámælisverð. Hann vill auðvitað ekki viðurkenna það. En það var það vissulega, m.a. það að kalla ekki til aðila eins og Ríkisendurskoðun og Samkeppniseftirlitið í þessu máli.

Síðan vil ég óska eftir því hér með, forseti, að hv. þingmaður fari rækilega yfir það og svari hér spurningum starfsmanna Ríkisútvarpsins sem þeir leggja fram í ályktun frá almennum starfsmannafundi, sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi fengið, því að hér eru allmargar spurningar og margt óljóst sem starfsmenn óska eftir að fá upplýsingar um. Hvað verður um réttindi starfsmanna? Hafa verið gerð … (SKK: Það stendur í frumvarpinu.) Nei, það stendur ekki í frumvarpinu. (SKK: Jú.) Nei, það gerir það ekki. Og hvernig á að semja um biðlaunarétt? Hvað með lífeyrisréttindin o.s.frv.? Þessu er öllu ósvarað. (SKK: Lestu frumvarpið.) Og hv. þingmaður getur ekkert snúið sér út úr því með því að segja mér að lesa frumvarpið. Ég er löngu búin að lesa frumvarpið og það er löngu tímabært að stjórnarliðar, sem eru að reyna að keyra þetta mál hér í gegn, svari þeim spurningum sem koma frá starfsmönnum í þessari ályktun, þeir eiga rétt á því. Þá þýðir lítið fyrir flokksbræður hv. þingmanns að tala hér um að það sé verið að tala niður til starfsmanna. (Forseti hringir.) Það er verið að koma lítilsvirðandi fram við starfsmennina með því að svara ekki þessum spurningum.