132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hlýjar kveðjur forseta í tilefni sumars og ég vil sömuleiðis fyrir hönd þingmanna óska forseta gleðilegs sumars og þakka fyrir samstarfið á liðnum vetri.

Ástæðan fyrir því að ég kem upp og kveð mér hljóðs eru fregnir sem við heyrum í fjölmiðlum af mjög vaxandi verði á olíuvörum hér á landi. Þetta kyndir undir verðbólgu. Þessi þróun á sér ferns konar rætur. Í fyrsta lagi er það þróun á heimsmarkaði sem ekki er hægt að segja að ríkisstjórnin eða við Íslendingar ráðum við. Þar er annars vegar skortur á hráolíu, skortur á búnaði til að vinna hana og sömuleiðis pólitísk spenna. En það sem hefur hins vegar leitt til þeirrar gríðarlegu verðsprengingar á olíuvörum hér á landi er sú staðreynd að krónan hefur nánast hrapað niður úr öllu valdi. Þetta leiðir til þess að olíuverð hækkar. Það kemur inn í verðlagið. Þetta leiðir til þess að það verður að mæta því með viðnámsaðgerðum sem m.a. felast í því að vextir munu hækka. Það er eitt af því sem fólkið tekur á sig. Vaxtahækkanir, verðtrygging skuldbindinga fólks gagnvart bönkunum leiðir til þess að húsnæðisskuldir og almennar skuldir hækka sömuleiðis og kaupmátturinn rýrnar Það er spurning með hvaða hætti hægt er að grípa til ráða til að reyna að vinna gegn þeirri þróun.

Hæstv. ríkisstjórn hefur sagt að um sé að ræða verðbólguskot sem gangi yfir, þetta sé kúfur. Sömuleiðis hefur hún sagt að gengið muni ná öðru og hærra jafnvægi en er í dag. Með öðrum orðum, þessi röksemdafærsla réttlætir það að gripið sé til tímabundinna ráðstafana og því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki sammála Samfylkingunni sem hefur lagt fram frumvarp um að um tímabundið skeið verði álögur ríkisins á olíuvörum lækkaðar. Nú hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tekið undir með Samfylkingunni og mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann ætli ekki að renna í slóð hans og beita sér fyrir tímabundnum aðgerðum af þessu tagi til að draga úr verðbólguskotinu.