132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:44]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að hækkanir á heimsmarkaðsverði á olíuvörum hafi áhrif á útsöluverð á þeim á Íslandi og áhrifa gengisbreytinga á krónunni mun óhjákvæmilega sjá stað sömuleiðis. Það sem menn eru að tala um væntanlega eru gjöldin sem á þessar vörur eru lögð á Íslandi. Ég bendi á að við beittum okkur fyrir mjög mikilvægri kerfisbreytingu í þeim efnum 1999 þegar aflagt var hlutfallslegt vörugjald á bensín og olíuvörur. Í staðinn fyrir það var tekin upp föst krónutala og sú krónutala hefur verið nánast óbreytt frá 1999, hefur einu sinni hækkað, það var árið 2003. Í millitíðinni reyndar var einu sinni gerð breyting þar sem þetta gjald var lækkað tímabundið í þrjá mánuði vegna þess að það var fyrirsjáanlegur kúfur í þessu efni. (Gripið fram í.) Það var gert þá. Það er ekkert sem bendir til þess, því miður, að um sé að ræða eitthvert sérstakt tímabundið ástand í þessum efnum núna.

Hins vegar er mikilvægt að gera kerfisbreytingar sem hvetja til minni bensíneyðslu og það gerðum við með mjög mikilvægri breytingu, þar sem Samfylkingin reyndar reyndi að þvælast fyrir í nokkur ár, þegar við tókum upp olíugjald sem hvetur fólk til þess að kaupa í fyrsta lagi ódýrari eldsneytisgjafa, sem er dísilolían, og í öðru lagi að kaupa tæki sem eyða minna eldsneyti, sem eru dísilbílarnir. Þetta er mjög merkileg breyting sem komst loksins í gildi fyrir ári síðan þrátt fyrir kvakið í Samfylkingunni og baráttuna gegn þeirri breytingu. Þetta er breyting sem núna mun fara að skipta mjög miklu máli þegar menn sjá mismuninn á eldsneytisverðinu, annars vegar í bensíni og hins vegar í dísilolíu, og svo að vita það að dísilbílarnir eyða miklu minna (Gripið fram í.) eldsneyti, færri lítrum á 100 km en bensínbílarnir. (Gripið fram í.) Ég hvet fólk til að hugleiða þetta og aðrar aðgerðir til að draga úr notkun á eldsneyti.

Virðisaukaskattsmálið er sérmál og það er rangt sem þingmaðurinn heldur fram hvað það varðar. Það er bara rangt. (Gripið fram í: Nei, nei.)