132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:48]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ágætis sumarbyrjun hjá hinu háa Alþingi að skora á hæstv. ríkisstjórn og fjármálaráðherra að lækka álögur á eldsneyti. Það er algjört grundvallaratriði. Eins og þetta horfir við stórum hluta almennings er nú bensínkreppa. Það þarf að skila til baka. Það er sanngjörn krafa almennings og okkar stjórnmálamanna að stjórnvöld endurskoði álögur á eldsneyti, endurskoði samsetningu á eldsneytisverði, og lækki þær að minnsta kosti tímabundið. Lækkunin þyrfti helst að vera varanleg en að minnsta kosti lækki álögur á eldsneyti tímabundið.

Hæstv. utanríkisráðherra gerði olíugjaldið að umtalsefni. Sú aðgerð mistókst því miður út af háu olíugjaldi. Það munar einungis örfáum krónum á lítra af dísil og bensíni, því miður. Þó að dísilbíllinn eyði minna er hvatinn allt of lítill og þetta hefur ekki orðið almenningi sú kjarabót sem lagt var upp með og þarf að vera.

Það er engum blöðum um það að fletta að álögur stjórnvalda á Íslandi á eldsneyti og bensín eru hærri en almennt þekkist annars staðar á Vesturlöndum og það er það sem núna gerir bílnotendum erfitt fyrir. Þess vegna er sú krafa uppi að stjórnvöld lækki álögur á eldsneyti, að minnsta kosti tímabundið, og komi þannig til móts við það erfiða ástand sem er á olíumörkuðum heimsins.

Ríkissjóður hagnast að sjálfsögðu á þessum olíuhækkunum út af tekjum af virðisaukaskatti sem aukast verulega. Það er því sanngjörn og réttlát krafa að ríkisstjórnin komi til móts við það, taki undir með Samfylkingunni og taki undir með einstökum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eins og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni í Blaðinu í dag, og lækki álögur á eldsneyti. Þó að ráðherrabekkur sjálfstæðismanna virðist vera að móast við (Forseti hringir.) er ástæða til að skora á þá að hlusta á þessar raddir.