132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:50]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það var sérstaklega athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Hann er örugglega eini talsmaður græningjaflokks í heiminum sem prédikar að lækka eldsneytisverð. Hann spyr síðan: Hvað er heildstætt? Hvað er heildstæð umræða? Það er umræða um hagvöxt, (Gripið fram í: Hann er að gagnrýna okur.) launaþróun, kaupmáttinn, framleiðsluspennuna, gengisbreytinguna, viðskiptahallann og um stöðu ríkissjóðs.

Það var reyndar bara einn af hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem fór í slíka umræðu hér, hv. þm. Jóhann Ársælsson, og ég verð að hrósa honum fyrir það. Hv. þm. Helgi Hjörvar hafði hins vegar fyrir jólin mestar áhyggjur af þensluáhrifum skattalækkana en nú hefur hann snúið við blaðinu í þessu eins og Samfylkingin í flestum efnum.

Hins vegar verður að hrósa hv. þm. Kristjáni Möller. Hann er samur við sig í sinni umræðu um kostnað af eldsneytisverði og það er reyndar mjög sjaldgæft innan Samfylkingarinnar sem snýr jafnan við blaðinu í öllum málum eins og fram hefur komið víðar.

Þegar verið er að tala um að fólk sé haft að féþúfu er vert að benda á að þeim fjármunum sem menn eyða í eldsneytiskaup í dag hefði væntanlega verið eytt í eitthvað annað og af þeim vörum sem þá hefðu verið keyptar er líka innheimtur virðisaukaskattur. Því held ég að stefna ríkissjóðs bitni ekki neitt sérstaklega á þessari þróun eins og hún hefur verið.

Þetta þarf að skoða í heild sinni, frú forseti. Við erum að ræða hér um efnahagsmálin, a.m.k. reyndu það sumir. Við erum að skoða þetta út frá stöðu ríkissjóðs, út frá því hvernig verðlag þróast og hvernig gengið þróast ásamt þeim öðrum þáttum sem ég nefndi.

Ég verð þó að minna á að rauði þráðurinn í öllum þeim skýrslum og öllum þeim álitum sem gefin hafa verið um stöðu mála í banka- og efnahagskerfinu á Íslandi hefur verið sá að það sé hin (Forseti hringir.) sterka staða ríkissjóðs sem geri hlutina þó þannig að menn þurfi ekki að hafa stórar áhyggjur. Þeirri stöðu þurfum við að (Forseti hringir.) viðhalda. Það heitir að skoða málið í heild sinni. (Gripið fram í.)