132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:53]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni um allt það sem tengist hækkunum á bensínverði. Það er alveg ljóst að þróun á heimsmarkaði og í heimsstjórnmálum leiðir til þess að bensínverð er að hækka.

Ég hef verið að rekja hér afleiðingar þessarar hækkunar. Hún leiðir til þess að það fer af stað verðbólgusprenging. Húsnæðisskuldirnar hækka, vextirnir hækka og allt umhverfi almennings verður miklu erfiðara. Þá kemur að þætti hæstv. forsætisráðherra. Hann hefur sagt að þetta sé kúfur sem gangi yfir. Ef svo er þá er fyllilega réttlætanlegt að grípa til tímabundinna ráðstafana eins og við höfum áður gert. Það lagði Samfylkingin til. Það er stjórnarandstaðan að leggja til hérna.

En það kemur í ljós að hæstv. utanríkisráðherra er ósammála formanni Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Hjá hæstv. utanríkisráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, kemur fram að þetta sé ekki kúfur. Hann boðar að við séum að fara inn í varanlegt verðbólguskeið. Það er það sem skiptir máli.

Nú ætti hæstv. utanríkisráðherra aðeins að reyna að slaka á. Ég veit að hann hefur vonda samvisku og hann er ráðvilltur í þessu máli. En það eru þrjár skoðanir hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er í fyrsta lagi hæstv. utanríkisráðherra sem er ósammála forsætisráðherra og segir að þetta sé ekki verðbólgukúfur heldur séum við að fara inn í verðbólguskeið. Hann vill ekki grípa til tímabundinna ráðstafana.

Hæstv. fjármálaráðherra, sem nú er hlaupinn úr salnum, er annarrar skoðunar. Hann vill skoða málið og hann útilokar ekki að grípa til þessara ráðstafana. Síðan kemur hinn ungi Tyrki Sjálfstæðisflokksins, sem ekki þorir að tala hér í dag, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem tekur í fjölmiðlum í dag undir með stjórnarandstöðunni og leggur til að ráðist verði í tímabundnar aðgerðir vegna þess að hann er ósammála formanni sínum. Hann segir að þetta sé verðbólgukúfur. En hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra er annarrar skoðunar.

Frú forseti. Það er óskynsamlegt af formanni Sjálfstæðisflokksins að (Forseti hringir.) tala svona. Hann ætti heldur að vera meira heima og sinna (Forseti hringir.) efnahagsmálunum en vera að flengjast um allan heim. Ekki verður það til að lækka olíuverðið.