132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:56]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Ég tel ámælisvert að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar geri því hér skóna að utanríkisráðherra sinni ekki störfum sínum og skyldum þó hann sitji ekki hvern dag í Alþingi vegna þess hann þarf að mæta á fundi annars staðar.

Hv. fyrrv. umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur sjálfur setið í ríkisstjórn og veit alveg hvernig þetta er. Þetta er ómerkilegur málflutningur, ómaklegur, ósannur og á ekki við nokkur rök að styðjast og er þar af leiðandi fullkomlega óafsakanlegur. Það er ekkert sem réttlætir það að bera fram slíkar ásakanir.

Ég ætlaði hins vegar að segja við þennan hv. þingmann, sem sagði í útvarpi í morgun að hann byggist nú við að fjármálaráðherra kæmi bráðum skríðandi í Alþingi með frumvarp út af olíugjaldsmálum — það er það sem heitir á máli Samfylkingar að leggja fram frumvarp á Alþingi, það er að skríða inn í þingið með frumvarpið. (Gripið fram í: Það er nú ekki komið enn þá.) Ég hef ekki haldið því fram, virðulegi forseti, að verðbólgan sé komin hér til að vera. (Gripið fram í.) Það er ekki verðbólgukúfur, það er ekki verðhækkunarkúfur hvað varðar olíuna. Hv. þingmaður getur flett þessu upp. Ég tel því miður ekki að sú hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem við horfum nú fram á sé tímabundin.

Það er það sem ég er að tala hér um, virðulegi forseti. Það er ömurlegur málflutningur hjá Össuri Skarphéðinssyni, eins og fyrri daginn, að snúa svona út úr umræðum manna, reyna að búa til ágreining í umkomuleysi sínu í Samfylkingunni og málefnaskorti og þroti því sem hann er þar í. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti vill benda á að hv. þingmaður og utanríkisráðherra ber af sér sakir og það ber að ræða um það efni. Því umræðunni um störf þingsins er lokið. Þeim tíma er lokið. Hins vegar eru hv. þingmenn sem hafa óskað eftir að kveðja sér hljóðs um fundarstjórn forseta.)