132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:14]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Mér þótti gott að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir minntist á það að af hálfu forseta hefur verið leitast við að eiga gott samstarf við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar. Ég get vitnað um það. (MÁ: Hvað veist þú um það?) Virðulegur forseti. Ég get vitnað um það vegna þess að ég er varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna og hef oft þurft að hlaupa í skarðið fyrir þingflokksformanninn, svo að ég útskýri það fyrir hv. þm. Merði Árnasyni. (MÁ: Það hefur verið gott samráð við þig.) Virðulegi forseti. Það var afskaplega gott að formaður þingflokksins, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, vísaði til þess. Og ég bíð eftir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson geri það líka þegar hann kemur upp og fer mikinn.

En um hvað snýst þetta mál? Af hverju eru menn alltaf að fara upp undir liðnum um fundarstjórn forseta og ræða eitthvað allt annað? Það er pólitískur ágreiningur um eitt mál. Hann er mikill innan þingsins. Það er ekkert nýtt. Hér koma menn upp í fullri alvöru og fara fram á að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hætti við ákveðið mál vegna þess að stjórnarandstaðan er í málþófi. (Gripið fram í: Málþófi?) Ástæðan fyrir því að við erum hér dag eftir dag að ræða fundarstjórn forseta, þótt það liggi fyrir að ekkert er athugavert við fundarstjórn forseta, er sú að stjórnarandstaðan er á móti viðkomandi máli. Það er ástæðan fyrir því að sumir þingmenn halda ræður klukkutímum saman. Ég vek athygli á því að þetta eru fínir ræðumenn. Þeir geta klárað mál sitt á mun skemmri tíma og þurfa ekki nein námskeið til þess. Jafnvel eru hv. þingmenn mjög góðir ræðumenn, sem halda ræðu í sex tíma vegna þess að þeir ætla með málþófi að reyna að koma málum frá sem meiri hluti er fyrir í þinginu.

Ég bið þingheim að hugsa þetta alla leið. Er það virkilega svo að mönnum þyki lýðræðislegt og réttlátt að svona vinnubrögð séu viðhöfð? Vilja menn, virðulegur forseti, að þingið okkar sé með þannig að þegar stjórnarandstaðan fer í málþóf geti hún stoppað mál sem meiri hluti er fyrir? Virðulegur forseti. Ég segi nei. Það liggur fyrir að ef menn halda langar ræður og eru með málþóf þá þurfum við að halda langa fundi.

Ef menn vilja hafa þann háttinn á er ekkert annað sem réttkjörinn meiri hluti á þinginu getur gert, ekkert annað.