132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:31]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég hafði gaman af því þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hefur snúið til baka á hið háa Alþingi fór yfir fundarsköp rússnesku Dúmunnar og taldi að við ættum að hafa þau til fyrirmyndar í störfum okkar hér í þinginu. Það vakti hins vegar athygli mína að hv. þingmaður sem hefur verið nefndarmaður í Norðurlandaráði skyldi ekki — ja, úr því að ég sé hérna hv. þm. Ögmund Jónasson í salnum — víkja að fundarsköpum sænska þingsins þar sem málum er þannig komið fyrir að einungis talsmenn nefnda hafa málfrelsi um einstök mál og geta einungis talað í 30 mínútur um hvert mál. Ef við hefðum tekið upp sænsku fundarsköpin værum við ekki í þeirri stöðu sem nú er upp komin.

Frú forseti. (Gripið fram í: Þá væri Sjálfstæðisflokkurinn …) Hér hefur ýmislegt verið sagt um það hvernig frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. var afgreitt út úr hv. menntamálanefnd. Ýmsar fullyrðingar hafa verið settar fram þeirri skoðun ýmissa þingmanna til stuðnings að taka eigi málið út af dagskrá og jafnvel senda það aftur í hv. menntamálanefnd. Ég vil taka það fram af þessu tilefni, frú forseti, að ekkert óeðlilegt er við það að efnislegur ágreiningur sé um þingmál í nefndum, ég tala nú ekki um stjórnarfrumvörp. Það gerist mjög oft þegar við fjöllum um einstök mál en það að slíkur efnislegur ágreiningur sé uppi þýðir ekki að ekki megi afgreiða málið út úr nefndinni. Það var gert í þessu tilviki. Það var efnislegur ágreiningur um málið en hins vegar töldum við í stjórnarmeirihlutanum, hv. þingmaður …

(Forseti (SP): Forseti vill benda hv. þingmanni á það að hann er að ræða hér um fundarstjórn forseta, ekki um störf í nefndum.)

Nei, nei. Fyrirgefðu, frú forseti, en ég ætlaði að leiða að fundarstjórn forseta með þessum inngangi mínum. Það var algjörlega eðlilega staðið að meðferð málsins innan nefndarinnar. Það kom fullbúið hingað inn í umræðuna, og það sem er merkilegt og hv. þm. Einar Már Sigurðarson á að vita, er að formaður þingflokks Frjálslynda flokksins, hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, var sammála okkur um það að afgreiða málið út úr nefndinni þrátt fyrir að hann væri kannski ekki efnislega sammála því sem í frumvarpinu stendur. En hann er eini hv. þingmaðurinn sem tók á þessu máli af einhverri skynsemi.

Frú forseti. Ég legg til að við höldum áfram að ræða þetta mál í 2. umr. og ég legg til að að þeirri umræðu lokinni verði tekin afstaða til þess hvort ástæða sé þá til að taka málið inn í nefnd. Því miður er það þannig, (Forseti hringir.) eftir því hvernig umræðan hefur verið um þetta frumvarp, að ekkert nýtt hefur komið fram í þeirri umræðu sem leiðir til þess að það þurfi að taka aftur inn í nefnd.