132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um fundarstjórn forseta er það fyrst að segja að ég bað áðan um að fá að bera af mér sakir vegna þeirra ummæla sem forseti viðhafði í ræðustól eftir ræðu mína síðast. Forseti hefur nú svarað því með því að ekki sé ástæða til að leyfa mér að bera af mér sakir. Það merkir í mínum huga að sakirnar séu engar og má þá gagnálykta sem svo að það hafi verið óþarfi af forseta að viðhafa þau ummæli sem hún hafði á eftir ræðu minni.

Um fundarstjórn forseta í öðru lagi vil ég segja það að í dag hefur forseti sett þrjú mál á dagskrá, Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveitina sem eru tengd mál og síðan hið ágæta frumvarp um hlutafélagavæðingu ÁTVR sem talið er næstmikilvægasta og -brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar á þeim tímum þegar efnahagsmálin eru eins og þau eru og þegar við erum með önnur frumvörp í þinginu sem þarf að afgreiða hratt. Ég nefndi áðan framhaldsskólann. Það er kannski lítið mál í samanburði við önnur, m.a. þau frumvörp um atvinnumál sem þarf að afgreiða fyrir þinglok og í nokkru hasti, umræður um hvað á að gera fyrir mánaðamót í málefnum fólks frá hinum nýju ríkjum Evrópusambandsins og innflutning þess hingað.

Ég skil vel með hvaða hætti forseti tekur þá ákvörðun að reyna að koma áfram málum eins og Ríkisútvarpsmálinu. Það er nokkurn veginn eina málið sem hæstv. menntamálaráðherra hefur flutt á þinginu sem einhverju skiptir og möguleiki er á að þingmeirihlutinn komi í gegn. Ég hef ekki staðið í neinu þrasi til að fá málið stöðvað, mér hefur ekki komið það til hugar að hlutirnir gerist þannig hér. Ég sagði hins vegar í menntamálanefnd og vil endurtaka það hér að vegna þess, forseti, að málið var vanbúið þaðan, vegna þess að ekki fóru fram umræður þar um efni málsins, vegna þess að ekki voru kallaðir til, að kröfu okkar, tveir aðilar sem kom í ljós á síðustu stigum gestakomu, umsagna og heimsókna að skiptu verulegu máli, vegna þess að neitað var þeirri kröfu að fá til þess bæran aðila eða reyndar var hafnað þeirri kröfu að fá fjölmiðladeild Evrópuráðsins til að fara í gegnum frumvarpið, mundi málið óhjákvæmilega taka meiri tíma í þingsalnum en ástæða er til.

Það verð ég að segja, og þess vegna ræði ég enn um fundarstjórn forseta, að þarna virðist forseti hafa hitt sjálfa sig fyrir því hún á að hafa eftirlit með störfum nefnda og á þess vegna að vita hvenær mál eru orðin nógu þroskuð í nefndunum til að hægt sé að taka þau út og ræða í þingsalnum af fullu viti. Það á ekki við um þetta mál og þess vegna er eðlileg sú krafa að það verði sett inn í nefndina aftur.