132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:44]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ljóst er að mikið álag hefur verið á starfsfólki sem sinnt hafa umönnun sjúklinga á nokkrum deildum Landspítala – háskólasjúkrahúss allt frá því stofnað var til háskólasjúkrahússins á sínum tíma. Álagið var mest á öldrunar- og lyflækningadeildum en er nú orðið viðvarandi á nær öllum deildum sjúkrahússins.

Þessi staða kom berlega í ljós á almennum fundi hjúkrunarfræðinga sem haldinn var 5. þessa mánaðar þar sem lýst var yfir miklum áhyggjum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum þar sem nú vantar um 100 hjúkrunarfræðinga til starfa. Uppsöfnuð þreyta braust fram og ástandinu var lýst eins og það er. Það var ekki verið að fegra eða hylma yfir ástand sem allir eru ósáttir við. Þessum lýsingum var ekki vel tekið af stjórnendum spítalans en landlæknir hefur tekið undir áhyggjur og lýsingu hjúkrunarfræðinganna.

Vinnuálagið á sjúkrahúsinu er óheyrilegt. Stöðugt kvabb um að mæta á aukavaktir er óþolandi til lengdar og við það ástand sem nú ríkir á öldrunarheimilum og í öldrunarþjónustunni er alveg fyrirsjáanlegt að álagið muni eingöngu aukast. Erfitt er að fá ófaglært starfsfólk. Sjúkraliðar eru ekki síður undir miklu álagi og erfitt er að fá þá líka til starfa. Gerð er óheyrileg krafa um sparnað og hagræðingu innan stofnunarinnar sem hefur komið niður á faglegri þjónustu, hefur komið niður á heilbrigði starfsmannanna og sjúklinganna.

Það verður að leita eftir samráði við þessa fagaðila og ófaglærðra um úrlausnir og líta á fleiri þætti en sparnað og hagræðingu þegar við erum að líta til heilbrigðisþjónustunnar á svo mikilvægri stofnun eins og Landspítali – háskólasjúkrahús er.