132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:47]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er verið að ræða mjög þarft málefni sem er mönnun á Landspítalanum. Útgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið umfram landsframleiðslu og er það alþjóðlegt vandamál. En hér á landi hefur hún vaxið miklu meira en annars staðar þannig að við trónum efst á toppi á þeim lista.

Þetta er mjög hættuleg þróun og það vita allir að þetta gengur ekki til eilífðarnóns því þá enda þjóðir heims í að framleiða bara fyrir heilbrigðiskerfið. Það gengur ekki.

Það sem ég held að sé vandamálið er að heilbrigðiskerfið íslenska er niðurnjörvað í ríkisrekstri. Eins og öll önnur fyrirtæki framleiða spítalar vöru og þjónustu og nota til þess fjármögnun og fólk. Það er bara svo einfalt. Vandinn er stjórn, forgangsröðun og hagræðing. Hvers vegna eru t.d. læknar með miklu hærri laun en aðrir háskólamenn? Hafa menn spurt sig að því? Hafa stjórnendur spurt sig að því? Og hvað er lækningin stór hluti af starfi læknanna? Eru þeir allan daginn að lækna eða eru þeir að gera eitthvað annað? Hvernig er háttað verkaskiptingu lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra? Er skynsemin höfð að leiðarljósi? Er verið að minnka skriffinnsku? Gæta menn að því að vinnuálag sé ekki of mikið á vissum stéttum? (JBjarn: Er þetta fulltrúi Sjálfstæðisflokksins?) Er það fólk sem skipuleggur og stjórnar meðvitað um þann gífurlega kostnað sem þetta leiðir til fyrir skattgreiðendur og lakari þjónustu? Hafa menn áttað sig á því hvað vinnuálag eykur mikið hættuna á mistökum sem aftur kosta meiri vinnu, meira álag og meiri kostnað.

Ég held að stjórnendur Landspítalans þurfi að bæta enn um betur og auka gæðaeftirlit og gæðastjórnun og bæta stjórnunina og gæta þess sérstaklega að þær stéttir sem eru undirmannaðar verði ekki undirmannaðar lengur og þá kannski skera niður þær stéttir sem eru yfirmannaðar, sem eru læknarnir.