132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:49]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Frú forseti. Landspítali – háskólasjúkrahús er fjölmennasti vinnustaður landsins en þar vinna rétt um 5.000 manns. Kostnaðarliðir sjúkrahússins og heilsugæslunnar hafa vaxið og þeir munu vaxa í samræmi við aukna þörf. Eftirspurn eftir þjónustu hefur einnig vaxið. Hún mun vaxa áfram.

Nauðsynlegt er að ekki verði slakað á kröfum til þeirrar góðu þjónustu sem við njótum og að öryggi sé til staðar. Það öryggi fæst ekki nema með góðu starfsfólki sem býr við starfsöryggi og starfsánægju. Það er rétt sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði áðan, að vandinn er ekki nýr. Hann er eigi að síður brýnn og það verður að taka á honum. Einnig er ljóst að niðurskurður sem hefur verið í rekstri sjúkrahússins bitnar á þjónustu við sjúklinga. Fjárveitingar til stofnunarinnar eru einfaldlega of litlar.

Formaður læknaráðs Landspítala – háskólasjúkrahúss sagði eftir áramót að horfur væri á að segja þyrfti upp allt að 200 starfsmönnum að óbreyttu. Ástandið ógnar öryggi sjúklinga. Fækkun starfsmanna eykur álag á starfsfólk sem eftir verður og auknar kröfur um vinnuframlag vegna vaxandi yfirvinnu sérfræðistarfsfólks, einkum hjúkrunarfræðinga, sömuleiðis. Sparnaður hefur orðið til þess að sjúklingar fá minni þjónustu en áður. Þeir koma inn veikari en fyrr og þeir eru útskrifaðir fyrr. Starfsfólkið leggur sífellt meira á sig en því eru takmörk sett hvað hægt er að ganga hart að því.

Það er einkennileg umræða sem fram fer um svokallað hátæknisjúkrahús sem á að rísa í einhverri óljósri framtíð. En á sama tíma er öllum ljóst að við búum þegar við hátækniþjónustu og hátæknibúnað á sjúkrahúsunum í dag. Aðstaðan er frábær og starfsfólkið leggur mikið á sig. Er ekki hægt að finna jöfnuð á milli þessara sjónarmiða? Draga úr hástemmdri umræðu um væntanlegt hátæknisjúkrahús en hlúa að þeirri öflugu hátækni- og sérfræðiþjónustu sem við búum sannarlega við í dag og veita henni möguleika á að nýta (Forseti hringir.) mannafla sinn og þekkingu? Liður í því er að búa starfsfólkinu sæmandi umhverfi og kjör.