132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Jónínu Bjartmarz að starfsfólk sjúkrahúsanna fær góðan vitnisburð. En það fær ríkisstjórnin hins vegar ekki. Enda á hún hann ekki skilið. Það er með ólíkindum hve úti á þekju stjórnvöld virðast vera í þessum efnum þegar mannahaldið er annars vegar. Hjúkrunarfræðingar hafa bent á þetta um árabil. Það hafa sjúkraliðar einnig gert. Í málgagni Sjúkraliðafélags Íslands, Sjúkraliðanum, hefur aftur og ítrekað ár eftir ár verið bent á og sýnt fram á með markvissum hætti í hvað stefndi í þessum efnum.

Árið 2002 var gerð könnun sem leiddi í ljós að yfir 800 sjúkraliða vantaði á vinnumarkað til að svara eftirspurn. Hefði þurft 300 til viðbótar árlega. Nú stefnir hins vegar í fækkun í þessari stétt. Hingað til hafa menn einblínt á stöðu sjúklinganna á sjúkrahúsunum eðlilega. En sinnt þá minna um aðstæður starfsfólksins, vinnuálagið, vaktafyrirkomulagið, en að sjálfsögðu er þetta nátengt og samtengt. Því meira vinnuálag, þeim mun minni þjónusta. Því minni aðhlynning, hæstv. forseti, þeim mun færra fólk sækir inn í þessar stéttir.

Nú stefnir í óefni. Nú þarf að gera eitthvað og það þarf að gera eitthvað markvisst. Sem betur fer eru hafnar viðræður milli hjúkrunarfræðinga, að því er ég best veit, og stjórnvalda og fyrir fáeinum dögum einnig við Sjúkraliðafélag Íslands.

Hæstv. forseti. Fylgst verður náið með hver framvindan verður í þessum efnum og hvort núna verði raunverulega gripið til aðgerða sem duga.