132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:31]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hélt þó nokkuð langa ræðu sem byrjaði í vetur og stendur enn í sumar ef þannig mætti orða. Það voru mörg bónorð í þessari ræðu hv. þingmanns og hún var tileinkuð Framsóknarflokknum að stórum hluta.

En mig langaði að koma sérstaklega að einu atriði sem hv. þingmaður kom inn á og það er það sem hann sagði að frumvarpið væri pólitísk atlaga ríkisstjórnarinnar að einkareknum fjölmiðlum. Þar vísaði hann í ummæli 365 fjölmiðla og mig minnir að þetta hafi verið tilvitnun í umsögn Viðskiptaráðs.

Það er þannig að við erum að horfa á ríkisrekstur í samkeppni í þessu tilfelli og í því felst pólitísk afstaða okkar og ef svo má segja reyndar annarra Evrópuþjóða einnig. Ég vil segja þá skoðun mína að ég er ekki sammála því að Ríkisútvarpið hf. sé pólitísk atlaga að einkareknum fjölmiðlum. Ríkisútvarpið verður eftir þessa breytingu betur í stakk búið til að sinna sínu hlutverki sem almannaútvarp. Það er greinilegt að við erum á réttri leið með að efla Ríkisútvarpið miðað við þau viðbrögð sem þetta hefur fengið. Er það ekki einmitt það sem allir hafa rætt um á hinu háa Alþingi, að reyna að efla Ríkisútvarpið? Enda kom það fram í máli hv. þingmanns að hann var ekki að lýsa þeirri skoðun sinni að hann væri endilega sammála þessu.

Þess vegna segi ég að ég tel að Samfylkingin verði að fara að svara því hvort viðhalda eigi ríkisreknum fjölmiðlum eða ekki. Við í Framsóknarflokknum viljum það, en hvað vill Samfylkingin?