132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að komast loksins í andsvar við hv. þingmann sem ég óskaði eftir á síðasta vetri. Þegar ræðan hófst var vetur, nú er komið sumar. Það lýsir þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um þetta mál hér á hinu háa Alþingi. Ég fagna því að ræðunni sé lokið.

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns sem vöktu athygli mína og þar á meðal þetta með að takmarka þátttöku Ríkisútvarpins á auglýsingamarkaði. Hv. þingmaður talaði fyrir því að heimildir Ríkisútvarpins á auglýsingamarkaði verði takmarkaðar umfram það sem nú er.

Hv. þingmaður lætur líta út fyrir að Ríkisútvarpið sé mjög umsvifamikið á auglýsingamarkaði. En eftir því sem ég kemst næst er það þannig að Ríkisútvarpið ræður yfir um 13% af auglýsingamarkaði í fjölmiðlum. Mér finnst mikilvægt að hafa það í huga þegar menn eru að ræða um stöðu þess á auglýsingamarkaði.

Mér finnst athyglisvert að hv. þingmaður, sem er þingmaður Samfylkingarinnar, heldur fram ákveðnum sérsjónarmiðum í sínum flokki. Ég sakna þess að þessum sjónarmiðum séu ekki gerð skil t.d. í nefndaráliti minni hlutans þar sem á þetta er ekki minnst og mig langar að spyrja af hverju.

Það sem ég hef áhuga á að vita er hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að þátttaka Ríkisútvarpins á auglýsingamarkaði verði takmörkuð. Hvernig á að útfæra þá hugmynd? Ég er ekki að segja að ekki geti til þess komið þegar (Forseti hringir.) pólitískur vilji stendur til þess að takmarka aðgengi Ríkisútvarpins að auglýsingum. Ég vil bara fá að vita hvernig á að gera það. (Forseti hringir.)