132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:40]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr að því hvað varð um áformin um söluna sem hv. þingmanni er svo umhugað um. Ég get alveg sagt hv. þingmanni það einu sinni enn. Ég held ég sé búinn að fara yfir þetta mál og svara þessari spurningu svona tíu, tuttugu sinnum í þessari umræðu. Hvað varð um áformin? Áformin urðu undir eins og hv. þingmaður veit. Ég hef gert grein fyrir því bæði í umræðum á þingi og opinberlega í fjölmiðlum. Ég lít þannig á að þessum spurningum sé öllum svarað.

Svar hv. þingmanns var ágætt að því leyti að það varpaði ljósi á að í rauninni er klofningur innan minni hlutans varðandi þetta mál. Það er ekki þannig að Samfylkingin gangi í takt í málinu. Ég minni t.d. á að hv. þm. Mörður Árnason upplýsti við 1. umr. að Samfylkingin hefði í sjálfu sér ekkert á móti hlutafélagaforminu svo lengi sem uppfyllt yrðu ákveðin skilyrði varðandi félagið. Svo sem að það yrði háð upplýsingalögum. Síðan talar hv. þm. Össur Skarphéðinsson fyrir því að Ríkisútvarpið megi ekki hlutafélagavæða heldur gera að sjálfseignarstofnun.

Auðvitað er það þannig að ekki er minnst á þessi sjónarmið, sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni um auglýsingarnar í nefndarálitinu, vegna þess að minni hluti nefndarmanna er ekki sammála um það. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem því miður er farin af þingi, mundi aldrei taka í mál að Ríkisútvarpið yrði tekið af auglýsingamarkaði.

Ég vil hins vegar taka fram að fyrir mína parta sé ég ekkert því til fyrirstöðu að það verði gert í náinni framtíð. Það má vel vera að Ríkisútvarpið verði dregið út af auglýsingamarkaði í (Forseti hringir.) náinni framtíð. En það er ekki pólitísk samstaða um það að sinni.