132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:42]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samfylkingin marsérar í takt í þessu máli. Það sem kom algerlega í veg fyrir hlutafélagaformið að okkar mati er að það vantar lög um hlutafélög í opinberri eigu og upplýsingaskyldu þeirra. Það er algjört grundvallaratriði fyrir slíkum breytingum.

Að hinu leytinu hentar einfaldlega sjálfseignarstofnunarformið miklu betur utan um rekstur Ríkisútvarpins en hlutafélagaformið. Það var niðurstaðan í málinu þó svo að ýmsar leiðir kæmu til greina. Það kom líka til greina að hafa þetta ríkisstofnun áfram. Þetta var bara besta leiðin og hana á að fara að sjálfsögðu.

Hvað varðar söluna á Ríkisútvarpinu þá upplýsir hv. þingmaður að hann sé klárlega á þeirri skoðun enn þá. Það eru viðhorfin sem ráða för í Sjálfstæðisflokknum að selja eigi útvarpið. Þetta var hins vegar einhver tímabundin málamiðlun fyrir því að þau urðu undir sagði hann, undir væntanlega Framsóknarflokknum sem náði því þó fram að útvarpið væri ekki selt í einu vetfangi heldur gert að hlutafélagi. En viðhorfin eru uppi áfram.

Það sem eftir stendur er bara pólitískt markmið um að takmarka umfang Ríkisútvarpins á auglýsingamarkaði til að vera sanngjarn gagnvart einkareknu miðlunum á þeim litla markaði sem við búum á. Það á alls ekki að mínu mati að taka það út af auglýsingamarkaði. Það á heldur alls ekki að mínu mati að taka upp nefskatt til að fjármagna það hvað varðar opinbera hlutann. Alls ekki. Það á frekar að notast við afnotagjöldin áfram því þau eru að mörgu leyti ágæt leið til fjármögnunar og miklu betri en nefskattur sem er fráleit leið.

Verst er að stuðningsmenn frumvarpsins hafa einhvern veginn ekki einu sinni gert tilraun til að útskýra fyrir okkur fyrir sitt leyti hvert hlutverk þess nýja almannaútvarps á að vera í framtíðinni. Það skiptir mestu máli og hefur rekið þá málefnalegu og góðu umræðu áfram sem hefur staðið núna í nokkra daga.