132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp til laga um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Hlutafélag sem er síðan aðdragandi að því að selja Ríkisútvarpið í heilu lagi eða í pörtum.

Það er vert að rifja upp, frú forseti, að það var stolt þjóð sem hóf útsendingar nýs Ríkisútvarps árið 1930. Útvarpið reyndist fljótt verða eins konar sál þjóðarinnar og sameinaði hana í sókn til nýrra tíma. Það var ekki aðeins boðberi frétta og veðurfregna, heldur var það aflvaki menningar- og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og þeirri baráttu lýkur í raun aldrei. Ríkisútvarpið tók sér bólfestu í innstu djúpum þjóðarsálarinnar og varð sem órjúfandi hluti af hjartslætti hennar.

Það er þessum hjartslætti sem nú á að fórna með frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Sáttin um Ríkisútvarp þjóðarinnar er rofin af þeim sem ganga erinda græðginnar, allt skal verða falt. Það var að vísu löngu vitað að frjálshyggjuöflin í Sjálfstæðisflokknum vildu selja Ríkisútvarpið og að núverandi menntamálaráðherra gengi erinda þeirra. Við höfum samþykktir frá Sjálfstæðisflokknum á undanförnum árum og harðan baráttuvilja ungliðahreyfingar hans sem hafa verið með það á oddinum á undanförnum árum að það bæri að einkavæða og selja Ríkisútvarpið.

Í þessari umræðu nú er meira að segja nýráðinn útvarpsstjóri, Páll Magnússon, búinn að blanda sér með ákveðnum hætti inn í umræðuna því hann getur ekki hamið óþreyju sína í að verða framkvæmdastjórinn í hinu einkavædda útvarpi. Hann skrifar greinar í blöð til dýrðar einkavæðingu Ríkisútvarpsins sem er í raun stórpólitískt mál og hefur það rækilega speglast í umræðunni hér á Alþingi undanfarna daga.

Ég held að öllu félagshyggjufólki þyki það afar döpur staðreynd að forusta Framsóknarflokksins skuli ganga svo fús undir það jarðarmen með Sjálfstæðisflokknum að fórna Ríkisútvarpi þjóðarinnar mótspyrnulaust. Reyndar kemur okkur kannski ekkert á óvart í þeim efnum nú.

Við munum hvernig fór fyrir Landssímanum. Fyrst var hann hlutafélagavæddur og gefnar hástemmdar yfirlýsingar um að hann yrði aldrei seldur. Þetta væri bara formbreyting. Varla var fyrr búið að breyta honum í hlutafélag en undirbúningur að sölu hófst. Sölu í bútum. Fyrst var rætt um hvort ætti að selja hann í bútum en á endanum var hann seldur í heilu lagi. Reyndar þvert gegn vilja þjóðarinnar ef marka má þær skoðanakannanir sem t.d. þjóðarpúls Gallups gerði varðandi afstöðu þjóðarinnar til sölu á Landssímanum með grunnnetinu og öllu sem því tilheyrði. Þá var afgerandi meiri hluti, 70–80%, sem sagðist andvígur því að Síminn yrði seldur, nokkrum vikum áður en að salan fór fram. En þrátt fyrir yfirlýsingar um annað var hann seldur.

Enda fer vilji sjálfstæðismanna í þessum efnum ekkert leynt. Hann liggur alveg fyrir. Á vissan hátt er hægt að virða Sjálfstæðisflokkinn fyrir að koma alveg hreint til dyranna og segja: Ætlunin er að selja Ríkisútvarpið. Við höfum hér frumvarp á Alþingi sem flutt er af nokkrum áhrifaþingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem gengur beinlínis út á að það verði selt.

Í þessu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem nú liggur fyrir, um breytingu á útvarpslögum, á þskj. 54, segir um einkavæðingu Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, verði felld úr gildi 1. janúar 2007, en nánar tilgreind ákvæði þeirra verði tekin upp í útvarpslög, nr. 53/2000. Stofnað verði hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins og það selt.“

Svo einfalt og klárt.

Við höfum upplifað það hér að einstaka stjórnarliðar reyna að slá um sig sauðargæru og segja: Nei, nei, þetta er bara formbreyting, það er ekki ætlunin að selja. En til hvers er þá verið að hlutafélagavæða?

Þegar hæstv. menntamálaráðherra lagði þetta frumvarp fram hér fyrir um ári síðan um hugmyndir að breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins þá sagði ráðherrann að það væri ekki hægt að breyta því í hlutafélag. Á Ríkisútvarpinu lægi fyrir sjálfseignarstofnunarform og aðspurð sagði hún að það væri ekki hægt að breyta því í hlutafélag vegna þess að ef ætti að breyta því í hlutafélag væri tilgangurinn með því að selja. Það var ekki ætlunin þá. En nú er ekkert til fyrirstöðu að breyta því í hlutafélag. Allir vita að fyrirtækjum er breytt í hlutafélag til að geta selt þau í pörtum eða í heilu lagi. Annars væri maður ekki að því.

Þetta vita framsóknarmenn líka enda ályktuðu þeir á flokksfundum sínum að þeir væru andvígir hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, þeir væru andvígir því að fórna Ríkisútvarpinu. Þegar það kemur síðan inn á þing, inn í ríkisstjórnina, inn í forustu Framsóknarflokksins er ekkert til fyrirstöðu að fórna Ríkisútvarpinu. Þetta skýrir sig í þeim málum sem Framsóknarflokkurinn er nú að leggja hér fram. Hann er búinn að berjast hér fyrir í þinginu að einkavæða vatnið, að færa auðlindina vatn undir séreignarákvæði. Næsta mál hjá Framsóknarflokknum var einkavæðing á Rafmagnsveitum ríkisins. Nú liggur fyrir frumvarp um að fórna Íbúðalánasjóði. Þannig að það eru engin takmörk fyrir því í rauninni á hvaða braut Framsóknarflokkurinn er. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt hjá Magnúsi Stefánssyni sem kallar hér fram í. Frumvarpið er ekki komið fram því það á að einkavæða hann áður. Það á að afhenda bönkunum Íbúðalánasjóð áður en frumvarpið kemur fram. (Gripið fram í.) Svona er nú hraðinn í einkavæðingaræðinu. Meira að segja sagði hæstv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins í ræðu á ársfundi Seðlabankans, að hann hefði óskað eftir að þetta gengi fram með hraði.

Þó einstaka framsóknarmenn vilji ekki við þetta kannast þá er það nú þetta sem gerist hér inni í þingsölum og þess vegna þarf engum að koma á óvart þótt þeir hafi hér lagst flatir fyrir einkavæðingu á Ríkisútvarpinu.

Það er líka vert að horfa til þess sem ýmsir aðilar höfðu verið að segja um þetta frumvarp og ég vil hér nefna sérstaklega Þorstein Pálsson, sem er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, og er nú ritstjóri Fréttablaðsins. En hann hefur einmitt verið að vara við því að hér væri verið að vinna rangt verk á röngum forsendum og niðurstöðurnar væru þess vegna rangar. Kveður þar svolítið við annan tón. En t.d. af því að hv. þm. Magnús Stefánsson er að velta fyrir sér hver afstaða Framsóknarflokksins sé, þá er hún alveg ljós, þetta er ríkisstjórnarfrumvarp, hér erum við að fórna Ríkisútvarpinu.

En þessu kyngir forusta Framsóknarflokksins enda er gamla samvinnuhugsjónin og félagshyggjan djúpt niðri í skúffu að minnsta kosti hjá forustu flokksins. Þannig held ég a.m.k. að hinn almenni félagsmaður Framsóknarflokksins upplifi það. Þeir sem reyna að æmta þar á bæ eru undir eins kveðnir í kútinn og settir út af sakramentinu hjá Framsóknarflokknum ef þeir eru með mótbárur gegn þessari stefnu flokksstjórnarinnar.

En Þorsteinn Pálsson hefur mikla reynslu, m.a. í starfi fjölmiðla. Í ritstjórnargrein 5. apríl síðastliðinn í Fréttablaðinu veltir hann einmitt upp efasemdum um heilindin á bak við hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. En þar segir, með leyfi forseta:

„Annaðhvort er undirbúningurinn í skötulíki eða ekki er allt með felldu um raunveruleg áform um að reka hér menningarútvarp og sjónvarp með nokkurri reisn og af þeim metnaði sem einn getur yfir höfuð verið réttlæting fyrir rekstrinum.“

Þetta eru nokkuð stór orð af manni sem þekkir mjög vel til, bæði innan ríkisreksturs og einnig á fjölmiðlamarkaðnum þegar hann segir að þetta frumvarp sé í skötulíki. Það er líka athyglisvert að heyra hvernig þessi umræða hefur þróast. Bæði núverandi útvarpsstjóri Páll Magnússon og hæstv. menntamálaráðherra snerust til varnar og reyndu að tala sig frá þeim rökum sem þarna var beitt af hálfu Þorsteins Pálssonar.

Það verður að segjast, frú forseti, að þáttur útvarpsstjóra í þessu máli er mjög sérkennilegur. Ég hefði talið að útvarpsstjóri ætti að vera ráðinn sem hlutlaus aðili pólitískt séð í svona stórpólitísku deilumáli og ætti að halda sig til hlés, hugsa meira um hag stofnunarinnar á hverjum tíma. En hann hefur blandað sér inn í þessa umræðu afdráttarlaust og það er athyglisvert að heyra hvernig Þorsteinn Pálsson lítur á þau orð og þau inngrip. Um einmitt þessi inngrip útvarpsstjóra sýnir það í hvaða ferli þetta mál er. Í ágætri grein sem Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins ritar í gær, á sumardaginn fyrsta, og fjallar einmitt um þessi inngrip útvarpsstjóra og sýnir í hvaða ferli þetta mál er. En þar segir svo, með leyfi forseta:

„Útvarpsstjóri hefur síðan kvatt sér hljóðs á síðum Morgunblaðsins með greinaskrifum í tvígang til þess að ítreka ummæli ráðherrans um þetta efni.

Útvarpsstjóri er jafnframt þeirri stöðu sinni þulur á fréttastofu sjónvarpsins og er maklega virtur fyrir það. Með því að blanda sér í opinbera umræðu um eitt mesta pólitíska deilumál þessa þings á þann veg sem hann hefur gert kemur hann auk heldur fram sem eins konar þulur ríkisstjórnarinnar í málinu. Sennilega er það í fyrsta skipti sem útvarpsstjóri gerist með svo skýrum hætti þátttakandi í stjórnmáladeilum.“

Þulur ríkisstjórnarinnar. Frú forseti. Við höfum líka upplifað þá miklu valdbeitingu sem hér hefur verið höfð í frammi við að keyra þetta mál í gegnum þingið. Þetta er orðið eitthvað trúarlegt ofstæki af hálfu flutningsmanna frumvarpsins, eins og það að einkavæða Ríkisútvarpið sé eitt brýnasta mál þingsins, einmitt á þessum vordögum. Komið að þinglokum. Miklu stærri mál hrannast nú upp. Staðan í efnahagsmálum. Staðan í fjármálum. Staðan í atvinnumálum og óöryggið sem fylgir þessum gríðarlega viðskiptahalla. Neyðarástand á sjúkrahúsum vegna þess að kjör starfsfólks á sjúkrahúsum og öldrunarheimilum eru svo lág og skortur á starfsfólki. Kjör aldraðra. Það er um of að taka á öllum þessum málum en þau fást ekki rædd. Þau fást ekki tekin fyrir með þeim hætti að árangur verði. En hitt, að einkavæða Ríkisútvarpið, að koma Ríkisútvarpinu sem fyrst á sölulista í bútum, eða í heilu lagi, það er kappsmálið.

Frú forseti. Mér gefst tækifæri til að ræða þetta mál enn frekar í síðari ræðu minni og þess vegna ætla ég ekki að lengja mál mitt nú. En ég skora á þjóðina að berjast fyrir stöðu þjóðarútvarps. Látum ekki einkavæðingaröflin, nýfrjálshyggjuöflin komast upp með að fara svo aftan að hlutunum að ná því að fórna Ríkisútvarpinu á altari einkavæðingar og græðgi fjármagnsins. Segjum hér stopp og heitum því að berjast gegn því að þetta frumvarpi nái nokkurn tíma fram að ganga.

Ég skora á framsóknarmenn sem enn hafa í sér einhverja félagshyggjutaug að taka þátt í þessari baráttu með okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.