132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:20]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu að Framsóknarflokkurinn muni aldrei standa að því að selja Ríkisútvarpið og ég vona svo sannarlega að til þess komi heldur aldrei.

Hins vegar vil ég aðeins leiðrétta það að ég ýjaði ekkert að því að Framsóknarflokkurinn ætlaði að selja Ríkisútvarpið. Ég nefndi það aldrei. Ég nefndi hins vegar þann ótta minn að hlutafélagavæðing gæti orðið til þess að af sölu yrði. Ég bendlaði Framsóknarflokkinn ekkert við það enda þótt hv. þingmaður hafi gert það og lagði mér þar með orð í munn sem ekki er rétt.

Það er hins vegar ekki rétt heldur að ég hafi ekki fjallað um áherslur Frjálslynda flokksins en kannski hefur þingmaðurinn misst af því. Ég nefndi þær leiðir sem Frjálslyndi flokkurinn hefur ítrekað reynt að fara og bent á til þess að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins. Hann hefur flutt þingsályktunartillögu í tvígang a.m.k. um að stofna til nefndar sem hefði það verkefni að undirbúa frumvarp af þessu tagi, undirbúa það á vandaðan hátt og gera það þannig úr garði að hægt væri að koma því í gegnum þingið með samþykki og sátt þingmanna og þeirra sem eiga að tryggja það að þessi stofnun verði okkur jafnmikilvæg og raun ber vitni.

Ég fór aðeins yfir þetta og sagði réttilega að ég hef afskaplega lítið fylgst með Framsóknarflokknum og ekki haft sérstaka löngun til þess fyrr en tilefni vakna eins og þessi. Ég var bara að velta því fyrir mér, og geri það stöðugt, hvað hefði gerst, af hverju þessar breytingar hefðu orðið, því að þegar ég starfaði innan Framsóknarflokksins þá starfaði ég líka hjá RÚV og fylgdist mjög vel með öllum ályktunum um Ríkisútvarpið. Þess var sérstaklega gætt að reyna að standa vörð um þá stofnun af hálfu Framsóknarflokksins sem taldi sig vera þá alveg sérstakan málsvara hennar. Það var þetta sem ég vildi gera að umræðuefni og benda á, ekki hitt að ég segði að hann mundi selja Ríkisútvarpið eða annað í þeim dúr.