132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:24]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það eru aðrar áherslur og það er ekkert sem bendir til þess að Framsóknarflokkurinn vilji selja RÚV. Það er gott að heyra og ég efast ekkert um það. Þetta er ekki stefnubreyting, sagði hv. þingmaður, og það er ekki stefnubreyting í málefnum Ríkisútvarpsins af hálfu Framsóknarflokksins.

Mér finnst, satt að segja, þetta frumvarp vera bein yfirlýsing um stefnubreytingu þar sem ályktanirnar sem ég vitnaði í áðan færast fyrst og fremst úr því að menn eru andvígir hlutafjárvæðingu yfir í það í næstu lotu að verða hlynntir sjálfseignarstofnun og í þriðju lotu að nefna það ekki en fara síðan yfir í hlutafjárvæðingu. Með því að samþykkja það frumvarp sem hér er lagt fram þýðir ekkert að segja mér að ekki sé um stefnubreytingu að ræða. Það hefur orðið mikil stefnubreyting á þessum árum og hún er mjög ljós með þessu frumvarpi. Það er ekki með nokkrum rökum hægt að halda öðru fram og frumvarpið er sönnun þess.

Það kann vel að vera, og er vafalaust rétt, að ekki sé neinn meiri hluti á þinginu núna fyrir því að selja Ríkisútvarpið. Þetta snýst kannski ekki alveg um það, vegna þess að við vitum hvað hefur gerst og við vitum hve miklu auðveldara er að markaðssetja hlutafélag, hvað það er miklu viðkvæmara fyrir hugmyndum af því tagi, hvort sem það yrði þessi meiri hluti, sem ég er ekki viss um að verði hér til eilífðarnóns eða ég rétt leyfi mér að vona það, eða einhver annar meiri hluti. Hlutafjárvæðingin auðveldar a.m.k. mjög þessa leið ef einhverjum kynni að hugnast að fara hana.