132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Nú sér fyrir endann á þessari umræðu sem staðið hefur mjög lengi, haldnar hafa verið margar ræður og langar, jafnvel tímamet verið slegin í þessu máli enda ljóst að mörgum hv. þingmönnum er mikið niðri fyrir.

Ég hafði hugsað mér að fara yfir ýmis þau efnisatriði sem fjallað hefur verið um hér í 2. umr. af hálfu margra hv. þingmanna og í sjálfu sér er af nógu að taka. Hins vegar er það þannig að náðst hefur samkomulag milli formanna þingflokkanna um að málið verði tekið til umræðu á ný í hv. menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. og ég tel að það sé mikilvægt til þess að hægt sé að greiða fyrir þingstörfum að ég leyfi mér að bíða með að fjalla um þessi efnisatriði sem ég hafði hugsað mér að taka fyrir í þessari ræðu og fjalla um þau þá í umræðu innan nefndarinnar og þá við 3. umr. ef tilefni er til.

Ég vil þó nefna eitt af mikilvægustu atriðunum sem hafa komið fram hér sem ég tel að skipti máli í þessari umræðu og er kannski það eina nýja sem komið hefur fram í umræðunni: Við 1. umr. þessa máls lýsti hv. þm. Mörður Árnason sinni skoðun og Samfylkingarinnar á því að það væri í sjálfu sér hægt að fallast á það að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi að undangengnum ákveðnum skilyrðum, svo sem því að þetta hlutafélag yrði látið sæta upplýsingalögum eða væri undir upplýsingalög fellt, a.m.k. skildi ég hv. þingmann svo.

Undir umræðum um þetta mál hefur hér verið dreift nefndaráliti og breytingartillögum 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem tekið er á þessu máli en þetta eru breytingartillögur frá nefndinni við frumvarp um breyting á lögum um hlutafélög á þskj. 1087, 404. mál.

Þar er lögð til sú breyting að inn í 4. efnismálsgrein 5. gr. frumvarpsins verði fellt inn ákvæði sem segir, með leyfi forseta:

„Fulltrúum fjölmiðla er heimilt að sækja aðalfund opinbers hlutafélags, kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum, ef ríkið er eigandi, og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum, ef sveitarfélagið er eigandi, er heimilt að sækja aðalfund með rétt til þess að bera fram skriflegar fyrirspurnir.“

Í nefndaráliti með þessari breytingartillögu er hún þannig skýrð út, með leyfi forseta:

„Í 5. gr. frumvarpsins láðist að taka fram að heimild fjölmiðla til þess að sækja aðalfund taki aðeins til opinberra hlutafélaga og leggur meiri hlutinn því til að það verði lagfært.“

Í tengslum við þessa grein fóru fram ítarlegar umræður um hvort ekki væri eðlilegt að kjörnum fulltrúum yrði einnig gert heimilt að sitja þá fundi. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu er lagt til að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, sé heimilt að sækja aðalfund með rétt til þess að bera fram skriflegar fyrirspurnir. Meiri hlutinn telur að með því að leyfa skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum verði auðveldara en ella að afla upplýsinga um opinber hlutafélög sem áður voru opinberar stofnanir og lutu þá sem slíkar m.a. upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.

Ég tel, frú forseti, og það er ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér í þessari ræðu, að ég tel að með þessari breytingartillögu, verði hún að lögum, sé að miklu leyti komið til móts við þau sjónarmið sem fram komu í umræðunni um þetta frumvarp. Ég vona að það geti þá leitt til þess að menn gangi sáttari frá borði eftir að málið hefur verið rætt í hv. menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. en á það á auðvitað eftir að reyna, en ég bind vonir við að svo verði.

Eins og ég sagði hér áðan, frú forseti, er svo sem af mörgu að taka um þessa umræðu, hún hefur verið löng og ströng og væri kannski ástæða til þess að fara yfir fleiri atriði hér. En eins og ég sagði hyggst ég sleppa því við þessa umræðu með það að markmiði að greiða fyrir störfum þingsins og í trausti þess að við getum tekið þessi atriði til umfjöllunar í hv. menntamálanefnd þegar málið verður tekið þar upp að lokinni þessari umræðu. (Gripið fram í.) Já, þetta er, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, yfirlýsing um það að málið verður enn og aftur tekið (Gripið fram í.) til efnislegrar umfjöllunar í hv. menntamálanefnd og ég geri ráð fyrir að hv. þm. Einar Már Sigurðarson sæki fundi nefndarinnar og fagni þessari yfirlýsingu minni.

Að svo búnu, frú forseti, læt ég þessari ræðu um þetta mál lokið hér.