132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir að nú sjái fyrir endann á þessari umræðu. Það er í sjálfu sér rétt að fyrir endann sér á 2. umr. um þetta umdeilda þingmál. En 2. umr. lýkur í meiri ágreiningi en dæmi eru um, um frumvarp eða þingmál, í langan tíma nema ef vera skyldi vatnalögin.

Við umræðuna í dag og á undanförnum dögum hafa komið fram ný álitamál, sum mjög alvarlegs eðlis, og ég vísa þar sérstaklega í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Álitamál sem snúa að höfundarrétti, sem snúa að eignum Ríkisútvarpsins, sem snúa að réttindamálum starfsmanna og eignaupptöku og hugsanlegum stjórnarskrárbrotum í þeim efnum. Ég tel það vera mjög mikilvægan áfangasigur fyrir stjórnarandstöðuna að fá því framgengt að málið skuli nú tekið aftur til umfjöllunar í menntamálanefnd þar sem nefndarmönnum gefst tækifæri til að varpa ljósi á málið með hliðsjón af þeim upplýsingum og ábendingum sem hér hafa komið fram.

En ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs í andsvari var sú að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvernig hann muni bregðast við komi fram tillaga í þinginu um að Ríkisútvarpið hf. verði selt. Því hann átti aðild að frumvarpi um að Ríkisútvarpið yrði lagt niður og selt. Hann gekk úr skaftinu á þessu þingi því hann fékk það hlutverk fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra að reyna að sannfæra þjóðina um að Ríkisútvarpið væri nú óhult í nýrri lagaumgjörð, fjárhagslega og rekstrarlega.

En hvernig mundi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson greiða atkvæði komi fram tillaga þess efnis að selja hið (Forseti hringir.) háeffvædda Ríkisútvarp? Ég vil fá skýr svör.