132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:10]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að gefnu tilefni vil ég geta þess strax í upphafi að ég hlustaði á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar hérna áðan. Ég var í hverju einasta orði sammála því sem hv. þm. Atli Gíslason sagði um rekstrarform útvarpsins og hvernig bæri að reka það, út af því sem hv. þingmaður nefndi um ágreining. Látum það nú vera.

Það var ákaflega merkilegt að hlusta á ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég notaði töluverðan tíma í ræðu minni um daginn til að sýna fram á hvernig hann hefur sikksakkað frá því að vilja selja Ríkisútvarpið og frá því að segja að hann sé enn sömu skoðunar og hann var í upphafi. Ég hélt satt að segja að hv. þingmaður væri búinn að læra að menn þurfa að standa í lappirnar. Svo kemur hann hér núna og er spurður um hvort hann mundi styðja það ef fram kæmi tillaga um að selja Ríkisútvarpið. Hv. þingmaður treystir sér ekki til að svara því.

Það vill svo til að þessi hv. þingmaður er ekki venjulegur þingmaður. Hann er sá sem ber ábyrgð á málinu á ferð þess í gegnum þingið. Það er fullkomlega eðlilegt að menn spyrji út í þetta einmitt út af fortíð þingmannsins í þessu. Hann getur ekki haldið sig við eina skoðun.

Mig langar að spyrja hv. þingmanninn að öðru. Hann lagði fram frumvarp með tveimur öðrum þingmönnum þar sem hann taldi upp í 13 snjöllum liðum ákaflega góða röksemdafærslu gegn því að menn tækju upp nefskatt til að afla tekna fyrir Ríkisútvarpið. Nú kemur þessi hv. þingmaður og berst með kjafti og klóm fyrir því að nefskattur verði samþykktur.

Má ég spyrja, frú forseti, hv. þingmann hvað veldur því að hann hefur skipt um skoðun? Ég spyr vegna þess að ég hélt hér langa málefnalega ræðu um daginn þar sem ég spurði hann þeirrar spurningar ásamt 18 öðrum spurningum sem var að finna í ræðu minni. Ég taldi að framsögumaður meiri hlutans mundi svara því í ræðu sinni. En hann heyktist á því. Svo ég læt mér (Forseti hringir.) nægja að spyrja út í nefskattinn.