132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:17]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér aðallega í andsvar við hv. þingmann til að fagna yfirlýsingu hans sem formanns menntamálanefndar um að málinu verði vísað til nefndarinnar aftur. Mér fannst þó skorta nokkuð á það hjá hv. þingmanni að fara yfir tilganginn með því. Er ekki öruggt að hv. þingmaður ætlar sem formaður nefndarinnar að beita sér fyrir því að þar fari þá fram umræður um frumvarpið sem slíkt og að tíminn verði nýttur vel til að kanna hvort hægt verði að ná samstöðu um einhverjar lagfæringar á því? Nema niðurstaðan verði sú að gallarnir séu svo miklir að ekki vinnist tími nú á vordögum til að bæta það svo mikið að um það geti orðið sátt? Það hefur komið fram í umræðum í þinginu og víðar í samfélaginu að sátt um þessa stofnun er mjög mikilvæg. Ég er klár á því að ekki mun standa á fulltrúum minni hlutans í nefndinni að fara vel yfir þetta mál ef hægt er að finna einhverjar leiðir til að bæta það.

Það kemur glöggt í ljós hér við umræðuna að hv. þingmaður hefur kynnt sér mjög vel — hann hefur áður flutt frumvörp um þessa stofnun — fjármögnunarleiðir. Hv. þingmaður heldur því fram að einungis sé um þrjár leiðir að ræða og rekur þær nokkuð. Hann kemst síðan að þeirri niðurstöðu að nefskatturinn sé skásta leiðin þrátt fyrir alla gallana sem hv. þingmaður er sérfræðingur í.

En hann nefnir aðeins tvennt til viðbótar, þ.e. afnotagjöld og fjárlög. Ég verð að spyrja hv. þingmann hvort við þessa miklu rannsóknarvinnu hafi ekki verið kannaðar ýmsar leiðir í gegnum skattkerfið, eins og m.a. ríkisskattstjóri bendir á? Í skýrslu sem mig minnir að hafi verið unnin af hálfu Ríkisútvarpsins er m.a. bent á að það sé möguleiki að nota fasteignir sem skattstofn (Forseti hringir.) í þessu tilviki svo möguleikarnir eru að sjálfsögðu mun fleiri.