132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:23]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera að annar þingmaður en hv. þm. Einar Már Sigurðarson geti upplýst mig um tilganginn með því að ræða málið milli 2. og 3. umr. í hv. menntamálanefnd. Ég hlakka til að heyra hvað hv. þm. Mörður Árnason hefur um það að segja. Ég geri ráð fyrir að minni hlutinn óski formlega eftir að fá tiltekna gesti eða einhver efnisatriði málsins sérstaklega rædd á fundum nefndarinnar.

En það sem skiptir mestu máli, frú forseti, varðandi andsvar hv. þingmanns er að hann lýsti því yfir að hann fagnaði því að stjórnarmeirihlutinn væri með því að taka málið aftur upp í hv. menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. að stíga skref til sátta í þessu máli. Þetta er merkileg yfirlýsing og ég fagna henni. Í henni felst viðurkenning á (Forseti hringir.) samningsvilja og sáttfýsi stjórnarmeirihlutans í þessu máli. Ég verð að vona að hv. stjórnarandstöðuþingmenn (Forseti hringir.) sýni sama samningsvilja.