132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[19:20]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hvorki boðlegt né ásættanlegt fyrir þingið að taka við málinu frá ríkisstjórninni með þeim hætti sem hér er lagt til. Það eru örfáir dagar síðan málið var lagt fyrir þingið og það hefði verið hægt að leggja það fyrir þingið fyrir mörgum mánuðum ef ríkisstjórnin og ríkisvaldið bæru einhvern minnsta snefil af virðingu fyrir vinnubrögðum í þinginu. Þetta er bara ekki boðlegt. Málið er hreinlega ekki tilbúið til framlagningar fyrir þingið þar sem ætlast er til að það sé samþykkt á örfáum dögum.

Hér upplýsir ráðherra að verið sé að vinna að stefnumótun í málefnum innflytjenda og þeim tillögum sem innflytjendaráð hefur lagt fyrir. Er ekki eðlilegt að þingið hafi þær tillögur fyrir framan sig áður en þetta er samþykkt, að falla frá þessari aðlögun sem við getum haft til ársins 2011? Hefði ekki átt að liggja fyrir þinginu hvað af þeim tillögum sem ASÍ hefur lagt fram að komi til, bæði í reglugerðarformi og lögum, lægi fyrir þinginu áður en ætlast er til að þingið falli frá þeirri aðlögun sem við getum haft í nokkur ár í viðbót? Ég er ekki að kalla eftir því að það séu nokkur ár í viðbót. Ég er að kalla eftir því að það séu nokkrir mánuðir, til næstkomandi áramóta, þannig að hægt sé að vinna að þeirri stefnumótun og þeim ramma sem þarf að vera í kringum þetta til að við séum tilbúin til að fara í þessa opnun, því að ég vil taka vel á móti því fólki sem hugsanlega kæmi hingað í kjölfar þess að fyrrgreind opnun yrði. Ég held að við séum hreinlega ekki tilbúin til þess og færði fyrir því rök í máli mínu. Slík opnun er mjög stórt mál og við eigum að taka vel og sómasamlega á móti því fólki en ég held að ýmislegt sé ógert í heimavinnunni hjá stjórnvöldum til að svo sé.

Þess vegna mótmæli ég þessum vinnubrögðum. Ég virði þingræðið meira en það að hægt sé að henda málinu inn í þingið með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir, ætlast til að þingið afgreiði það á örfáum dögum (Forseti hringir.) og að umsagnaraðilar fái ekki eðlilegan tíma til að fjalla um málið. Ég mótmæli því, virðulegi forseti.