132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[19:22]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek að ég hygg að tími gefist til að senda málið til umsagnar og það hefur nú oft verið þannig að þá hefur verið kallað á aðila til fundar í nefnd, en hins vegar hef ég fregnir af því að það mun vera ætlunin að senda aðilum málið til umsagnar.

Það er alveg rétt að þetta mál er ekki snemma á ferðinni og ég hef rakið hvers vegna. Ég hef rakið að það tók tíma að koma málinu fram þannig að sæmileg sátt væri um það hjá hinum stóru aðilum vinnumarkaðarins. Skýrsla innflytjendaráðs um málefni útlendinga liggur fyrir og er ekkert því til fyrirstöðu að félagsmálanefnd kalli eftir henni. Ég endurtek að verið er að vinna að þeim málum í ráðuneytinu. Þó að tíminn sé skammur hafa hv. þingmenn oft unnið skarplega á lokasprettinum og ég vona að svo verði í þessu máli.