132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Atvinnuástandið á Bíldudal.

[15:17]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Málefni á Bíldudal hafa komið til umfjöllunar nokkrum sinnum í ríkisstjórninni, sérstaklega að því er varðar hugmyndir um kalkþörungaverksmiðju þar á svæðinu. Menn binda miklar vonir við þá verksmiðju og ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti stutt það með ýmsum hætti að af því gæti orðið. Það liggur fyrir að þar þarf að eiga sér stað sérstakt átak í hafnargerð og einnig er um ábyrgðir að ræða og þess vegna má flokka það undir sérstakar aðgerðir.

Hvað varðar fyrirtækið sem hv. þingmaður spurði um þá á ég von á, vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á gengi íslensku krónunnar, að útlit fyrir slíka starfsemi sé mun betra núna en var fyrir nokkrum vikum. Ég veit að það mál hefur verið til umfjöllunar hjá Byggðastofnun og það er eðlilegt að sú stofnun komi að slíku máli enda er um góðan rekstrargrundvöll að ræða. Ég hef ekki átt neinar viðræður við Byggðastofnun um málið en af þessu tilefni mun ég spyrjast fyrir um það. Ég vænti þess að þessi svör séu fullnægjandi fyrir hv. þingmann.