132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ástandið í Palestínu.

[15:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra vegna þeirra atburða sem eiga sér nú stað í Palestínu. Í kjölfar þingkosninga þar sem Ísraelar urðu ekki ánægðir með niðurstöðurnar hafa þeir beitt hina hernumdu þjóð efnahagslegum refsiaðgerðum sem nú eru farnar að segja mjög illa og áþreifanlega til sín.

Þannig er að Ísraelar innheimta skatta og tolla fyrir hönd stjórnvalda hinnar hernumdu þjóðar og leika nú þann gráa leik að stöðva fjárstreymi til stjórnvalda. Neyðarkall berst nú innan úr ýmsum stofnunum, ekki síst sjúkrahúsum og úr heilbrigðiskerfinu almennt, enda þarf ekki að spyrja hvaða afleiðingar það hefur þegar peningastreymið er stöðvað. Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið bæta nú gráu ofan á svart því að báðir þessir aðilar hafa stöðvað fjárstreymi til palestínskra yfirvalda og einnig það segir nú til sín.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir, með leyfi forseta:

„Vesturlönd geta ekki unnið svona. Vestræn lýðræðisríki geta ekki hafist handa við að grafa undan niðurstöðu lýðræðislegra kosninga jafnvel þótt þeim líki ekki niðurstaðan. Þessi ríki verða að vera sjálfum sér samkvæm. Annars geta þau ekki búist við því að á þau verði hlustað.“

Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda? Það er afstaða okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að íslenskum stjórnvöldum beri siðferðileg og pólitísk skylda til að koma Palestínumönnum til aðstoðar þó ekki væri nema með yfirlýsingu af sinni hálfu.