132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ástandið í Palestínu.

[15:28]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað hljóta allir lýðræðislega sinnaðir menn að fagna því að lýðræðið er að skjóta rótum í Palestínu. En þarna verður að gera ákveðnar lágmarkskröfur eins og ég hef getið hér um og eins og vestræn ríki hafa almennt haldið fram.

Þetta mál var t.d. rætt nýverið á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna þar sem menn fóru yfir þá stöðu sem uppi er í hverju landanna fyrir sig. Ég heyri ekki betur en að samstaða sé meðal vestrænna landa um þá afstöðu sem tekin hefur verið. En ég bendi á hversu mikil undirtök Hamas-hreyfingin mundi fá í samskiptum sínum við Ísraelsmenn í hinu alþjóðlega almenningsáliti og með öðrum þjóðum ef hún bara gerði það, sem virðist vera frekar útlátalítið, að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis, hafna hryðjuverkum og lýsa því yfir að hún virði gerða samninga.