132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ástandið í Palestínu.

[15:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Palestínsk yfirvöld hafa lengi viðurkennt Ísraelsríki, það gerði Arafat. Engu að síður var því jafnan lýst á þann hátt að hann væri þrándur í götu, hann stæði í vegi friðar við Ísraela. Nú er komin önnur ástæða til sögunnar.

Við erum að verða vitni að hóprefsingu og við tökum undir með þeim sem styðja slíkt. Ég vitnaði í leiðara Morgunblaðsins í morgun þar sem sagt er að vestræn lýðræðisríki geti ekki komið svona fram ef þau vilja láta taka sig alvarlega. Við erum að tala um niðurstöður úr lýðræðislegri kosningu þar sem 77% landsmanna tóku þátt. Ég ítreka það, hæstv. forseti, að Ísraelar hafa neitað að viðurkenna Palestínuríki á þeim forsendum sem ákveðið var á vegum og vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 1949 (Forseti hringir.) og ítrekað aftur margoft í yfirlýsingum frá öryggisráðinu og frá öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna.