132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Samráðshópur um atvinnumál á Suðurnesjum.

[15:31]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Í framhaldi af einhliða tilkynningu Bandaríkjamanna um brotthvarf bandaríska varnarliðsins héðan af landi á dögunum komu fram ýmis viðbrögð frá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Flest voru þau viðbrögð óljós og erfitt að ráða í hvað þýddu. En eitt var þó alveg skýrt sem fram kom í framhaldi af þessu og í framhaldi af fundi sem hæstv. ráðherrar áttu með sveitarstjórnarmönnum í Reykjanesbæ á Suðurnesjum.

Það var sú yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra um að skipaður yrði samráðshópur ríkis og sveitarfélaga, sjö manna samráðshópur, sem mundi skoða með hvaða hætti yrði tekið á þeirri stöðu sem upp væri komin.

Í fréttum sjónvarpsins 19. mars var haft eftir forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Það þýðir ekkert að vera að tala um fortíðina í þessu sambandi og það er mjög mikið af tækifærum og niðurstaðan varð sú að minni tillögu að við settum niður samstarfshóp ríkisstjórnarinnar og samfélagsins hér, sjö manna hóp til þess að fara yfir öll þessi mál, líta á allar þær tillögur sem hafa verið uppi á borðinu með það í huga að nýta þessa aðstöðu sem best.“

Suðurnesjamenn fögnuðu þessari yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra og á fundi stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum þann 20. mars, eða daginn eftir, var skipað í þennan samráðshóp af hálfu sveitarfélaga. Við höfum ekki heyrt af því að ríkisstjórnin hafi enn tilnefnt í þennan samráðshóp sem hæstv. forsætisráðherra gerði tillögu um og veltum því fyrir okkur á Suðurnesjum hvað dvelur orminn langa. Það er komið á fimmtu viku frá því þessi yfirlýsing var gefin. Á hverju stendur? Mér þætti vænt um ef hæstv. utanríkisráðherra gæti svarað hvort einhver ágreiningur er uppi um að fara þessa leið. Ef svo er, hvað á þá að koma í staðinn? En ef ekki er ágreiningur, hvort ekki eigi að drífa í að skipa í þennan samráðshóp.