132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg.

[15:37]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra og ástæðan eru þær fréttir sem hafa borist um sjóræningjaveiðar svokallaðar á Reykjaneshrygg. En það sem er um að ræða er að skip sem skráð eru í Georgíu, Belize, Dóminíska lýðveldinu og Rússlandi stunda þar ólöglegar veiðar og er talið að úthafskarfaafli þessara skipa sé um 30.000 tonn.

Til samanburðar er rétt að nefna að veiðiheimildir Íslendinga á þessu svæði eru 28.600 tonn. En veiði Íslendinga á því svæði hefur farið jafnt og þétt minnkandi og var á síðasta ári 16.000 tonn en voru árið 2004 40.000 tonn en 2003 48.000 tonn.

Svo virðist vera ef marka má fréttir að nokkuð erfitt sé að stemma stigu við þessum ólöglegu veiðum og hefur framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, Friðrik J. Arngrímsson, haldið því fram að eina leiðin til að virkja úrræðin sé að færa skipin til hafnar og íslensk stjórnvöld ættu að láta á það reyna.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem ég veit að hefur haft mikinn áhuga á þessu máli og hefur rætt þetta á opinberum vettvangi, hvernig sé best að stemma stigu við þessu, hvernig hann lítur á þá stöðu sem er komin upp í þessu máli og hvaða aðgerðum íslensk stjórnvöld muni beita til að reyna að koma í veg fyrir þessar svokölluðu sjóræningjaveiðar, sem þær vissulega eru.