132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg.

[15:42]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er þess eðlis að við náum ekki að sigrast á því nema í samvinnu við önnur ríki, fyrst og fremst ríki Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar. Við erum að taka þessi mál upp þar mjög reglulega og reynum að herða á þessu máli eins og við lifandi getum.

Ég hef tekið þessi mál upp við forsvarsmenn innan Evrópusambandsins, við ráðherra í Færeyjum, Noregi og Bretlandi, allt í því skyni að reyna að vekja athygli á málinu. Íslensk stjórnvöld hafa sömuleiðis tekið þessi mál upp við stjórnvöld í Þýskalandi þar sem þessi skip hafa verið.

Við höfum vissulega ýmis úrræði og ekki síst sem felast í auknu eftirliti. Þegar skipin hafa fiskað í sig þurfa þau að losna við aflann. Þau gera það hugsanlega í höfnum Evrópu og þá þurfum við að fylgjast með því og koma athugasemdum okkar á framfæri við viðkomandi ríki. Því þarna er um að ræða algerlega ólöglegan afla og við verðum að koma í veg fyrir að þau geti landað honum og gert sér verðmæti úr honum. Þau hafa líka verið að landa (Forseti hringir.) í skip á hafi úti og við þurfum að fylgjast með því og reyna að koma í veg fyrir að það takist aftur.