132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:46]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við stjórnarandstæðingar höfum í þessari umræðu sýnt fram á það í fyrsta lagi að ekki er í frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. mótuð stefna um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps í framtíðinni. Alls óljóst er um þjónustu þess við íslenskan almenning og stöðu þess á markaði. Búast má við kárínum frá Evrópusambandinu vegna þessa og auk þess er óvíst að frumvarpið standist tilmæli Evrópuráðsins. Hætt er við að áfram haldi ófriður vegna Ríkisútvarpsins þar sem markaðsstöðvarnar sætti sig illa við ríkisstyrkt útvarp sem í dagskrá sinni dragi dám af markhópasókn auglýsenda.

Í öðru lagi höfum við bent á að í frumvarpinu er ekkert aðhafst til þess að aflétta flokkspólitískum ítökum og íhlutun á Ríkisútvarpinu. Stjórnskipan þess gerir ráð fyrir að ríkisstjórnarmeirihluti endurnýjaður árlega ráði og reki útvarpsstjóra sem síðan hafi öll önnur völd í sínum höndum. Ljóst er að um þess konar fyrirkomulag skapast aldrei pólitískur friður eða sátt meðal landsmanna.

Í þriðja lagi höfum við bent á hversu fáránlegt það er að ætla fyrirtækinu búning hlutafélagsins og skapa að auki innan þess sérstaka leynd með því að gera ekki ráð fyrir að um það gildi upplýsingalög. Þessi tilhögun er sérlega athyglisverð þegar hafðar eru í huga fyrri yfirlýsingar Framsóknarflokksmanna um málefni Ríkisútvarpsins.

Þá höfum við bent á mikla galla nefskattsins sem fjáröflunarleiðar, dregið fram ófullnægjandi ákvæði um réttindi starfsmanna, krafist þess að gerð yrði grein fyrir eiginfjárstöðu fyrirtækisins, spurt án svara um réttarstöðu safnefnis og vakið athygli á miklu fleiri ágöllum frumvarpsins sem er alvarlega áfátt í flestum greinum þótt um einhverja helstu menningar- og lýðræðisstofnun Íslendinga sé að ræða.

Tillaga stjórnarandstæðinga í áliti minni hluta menntamálanefndar er því sú að málinu verði vísað frá. Forustumenn stjórnarmeirihlutans hafa nú fallist á að taka málið fyrir á ný í nefnd eftir 2. umr. Við höfum lagt fram tilboð um verklag við vinnuna fram undan og lagt til að nefnd skipuð fulltrúum allra flokka fari yfir málið í sumar. Við bíðum svars við því tilboði. Af þessum sökum hyggjumst við kalla aftur frávísunartillögu til 3. umr. Við sitjum hjá við atkvæðagreiðslu um breytingartillögur meiri hlutans enda varða þær ekki aðalatriði máls heldur er ætlað að uppfylla formskröfur frá Eftirlitsstofnun EFTA. Við sitjum einnig hjá við atkvæðagreiðslu um einstakar greinar enda þarf að fara yfir málið allt á ný í menntamálanefnd og í þeim hópi sem vonandi verður settur til verka í sumar.