132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:53]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið hf. Það varð að samkomulagi á föstudaginn sl. að ljúka 2. umr. um þetta mál og vísa því til umfjöllunar í hv. menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. Stjórnarandstæðingar hafa talið að í þessu máli séu einhverjir lausir endar og þeir óskuðu því eftir að málið yrði tekið til umræðu og meðferðar í nefndinni á ný og kallaðir fyrir nefndina gestir þeir sem þeir óskuðu eftir að þangað kæmu.

Við höfum fallist á að kalla málið aftur inn í nefnd. Ég lít það þannig að með því séu stjórnarflokkarnir að rétta stjórnarandstöðunni sáttahönd eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur lýst. Ég verð þó að segja að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum á laugardaginn, daginn eftir að þetta samkomulag var gert að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem óskaði eftir þessum fundi, lýsti því yfir í fréttum að þetta frumvarp væri hrákasmíð en það sem meira væri væri að hún teldi engar líkur á því að neinar sættir mundu nást.

Sem betur fer hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar í hv. menntamálnefnd, hv. þingmenn Mörður Árnason, Atli Gíslason, Björgvin G. Sigurðsson og Einar Már Sigurðarson, sent mér málefnalegt bréf þar sem óskað er eftir að málið verði tekið fyrir í menntamálanefnd og þar verði einstök efnisatriði málsins yfirfarin nánar og gestir kallaðir á fund nefndarinnar. Ég fagna þessu bréfi. Málið mun því fara til nefndarinnar þar sem við munum fjalla frekar um það og afgreiða til 3. umr.